131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Sala ríkiseigna.

412. mál
[12:25]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var fróðlegt að hlusta á svar hæstv. fjármálaráðherra við þeirri fyrirspurn sem hér var lögð fram. Það að samræmdar reglur gildi um hvernig ríkisfyrirtæki séu seld, heimildar sé aflað til að gera það og þetta sé allt saman í eðlilegum og sjálfsögðum farvegi þar sem auglýst er útboð og hæstbjóðandi fái — ég hélt satt að segja að hæstv. ráðherra væri að tala um eitthvað annað en sölu ríkiseigna þegar hann lýsti þessu ferli. Allir þeir sem fylgst hafa með þeirri sögu gera sér grein fyrir því að sérstakar reglur gilda í hverju einstöku tilviki, og oft og tíðum eftir að lagt er af stað í þá ferð að selja er þeim reglum breytt til að laga þær að þörfum einhvers kaupanda sem virðist jafnvel hafa verið valinn fyrir fram.

Vona ég að hæstv. fjármálaráðherra sjái þörfina fyrir það að setja heildstæða löggjöf um þetta efni.