131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Ólögmætt samráð olíufélaganna.

427. mál
[12:40]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði að menn hagnist ekki á því að gera samsæri gegn neytendum og atvinnulífi í landinu. Þess vegna er ákaflega brýnt að ríkið sem stór viðskiptavinur við olíufélögin undirbúi fyrir sitt leyti aðgerðir til að sækja það tjón sem félögin ljóslega hafa valdið ríkinu. Ég lýsi yfir undrun minni á hæglæti fjármálaráðherra í þessu efni. Hjá Reykjavíkurborg sem átti í svipuðum málum við olíufélögin hefur verið farið yfir þessi mál og liggja fyrir lögfræðiálit um að borgaryfirvöldum er ekkert að vanbúnaði við að sækja rétt sinn gagnvart félögunum. Ég treysti því að hæstv. fjármálaráðherra lýsi hér yfir fullum vilja til málshöfðunar af sama tagi og reyni að taka sig saman í andlitinu og standa sig með svipuðum hætti í þessum málum og borgaryfirvöld í Reykjavík hafa með fordæmi sínu sýnt.