131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Ólögmætt samráð olíufélaganna.

427. mál
[12:42]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum hafa margir lýst því yfir að þeir séu þess að fullu reiðubúnir að höfða mál til heimtu skaðabóta á hendur olíufélögunum. Hið sama á að sjálfsögðu við um ríkið. Þau sjö tilvik sem ég nefndi áðan eru öll staðfest í áfrýjunarnefnd samkeppnismála og því er ljóst að bótaréttur ríkisins er nokkuð viss.

Reykjavíkurborg hefur lýst því yfir og látið vinna sérstakt lögmannsálit um þetta. LÍÚ hefur gert hið sama. Alcan er að gera hið sama og fleiri og fleiri. Þess vegna verð ég að taka undir það með þeim sem það hafa sagt hér að sérstaka furðu vekur það hæglæti sem hæstv. fjármálaráðherra sýnir í þessu máli, þ.e. að hann skuli ekki nú þegar hafa hafið undirbúning að því að kanna hvort ríkið eigi rétt á bótum eða ekki. Það er mikilvægt að hefja þessa vinnu strax því að niðurstaðan má ekki verða sú að þeir sem stunda svona samsæri gegn í almenningi í þessu landi hagnist á því. Ef þær sektir sem nú hafa verið lagðar á þessi félög einar og sér koma til með að standa sem niðurlag þessa máls þá hafa, að mati bæði samkeppnisráðs og áfrýjunarnefndar, félögin haft a.m.k. 5 milljarða út úr því að beita slíku samsæri gegn almenningi og neytendum í þessu landi.

Því er einnig full ástæða til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Mun ríkissjóður koma að því og styðja við bakið á Neytendasamtökunum og einstaklingum sem vilja láta á rétt sinn reyna gagnvart þessum félögum? Svo almennt og víðtækt er þetta samráð að minni hyggju að full ástæða er fyrir ríkissjóð að skoða það að styðja við bakið á þeim sem vilja sækja rétt á hendur þessum félögum.