131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Fræðsla um meðferð kynferðisafbrotamála.

105. mál
[13:02]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson, hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn:

„Er hafin vinna við að samræma og efla fræðslu og þekkingu fagstétta um meðferð kynferðisafbrotamála?“

Spurningin er víðtæk en svar mitt tekur mið af heilbrigðisþjónustu eingöngu og þeim fagstéttum sem starfa á því sviði. Það er ekki hafin nein vinna svo að mér sé kunnugt við að samræma fræðslu og þekkingu fagstétta um meðferð kynferðisafbrota og ekki kannast starfsmenn heilbrigðisþjónustu við áform um það. Heilbrigðisstéttirnar hafa hins vegar á undanförnum árum lagt töluvert mikla vinnu í að efla þekkingu á þessu sviði jafnhliða því að upplýsingar um umfang og afleiðingar kynferðisafbrota hafa aukist. Þróun þekkingar á þessu sviði er mjög mikilvæg og sú reynsla sem hefur fengist af neyðarmóttöku vegna nauðgana og annarri þjónustu á svipuðu sniði hefur verið nýtt til að fræða heilbrigðisstarfsmenn og verðandi heilbrigðisstarfsmenn betur en áður um ýmsa þætti þessa viðkvæma hluta heilbrigðisþjónustunnar. Þessi miðlun þekkingar fer þó fyrst og fremst fram í menntastofnunum og að minna leyti með starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum.

Enginn ágreiningur er um það að þessum þætti þjónustunnar þarf að sinna eins vel og kostur er, og öllum eru raunar ljósar hinar alvarlegu afleiðingar sem þessi afbrot geta haft á þá sem fyrir þeim verða. Oft er um að ræða langtímaáhrif sem ekki eru endilega tengd með skýrum hætti við afbrotið og er því mikilvægt að starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar séu vakandi fyrir orsökunum og vel í stakk búnir til að mæta þörfum þessara skjólstæðinga ef þeir leita sér hjálpar.

Eins og áður segir eru ekki uppi nein sérstök áform um að samræma þessa þekkingu. Ábyrgð á menntun heilbrigðisstétta er ekki nema að hluta til á herðum heilbrigðisþjónustunnar svo að ljóst er að samræming mundi þýða samvinnu fleiri ráðuneyta í þessu mikilvæga máli.