131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

414. mál
[13:09]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 7. þm. Suðurk. Björgvin G. Sigurðsson hefur beint til mín fyrirspurn um aldraða á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þingmaðurinn spyr hve margir aldraðir séu á dvalarheimilum annars vegar og hjúkrunarheimilum hins vegar, hve margir deili herbergjum með öðrum að frátöldum hjónum eða sambýlisfólki og hve margir séu í einkaherbergjum.

Leitað var upplýsinga með bréfi sem sent var í lok desember 2004 til forstöðumanna allra öldrunarstofnana í landinu. Stofnanirnar eru samtals 73 en í sumum tilvikum eru fleiri en eitt öldrunarheimili sem heyra undir sömu stofnun. Samkvæmt upplýsingum frá öllum þessum stofnunum miðað við stöðuna í janúar eru samtals 843 einstaklingar í dvalarrými. Af þeim eru 704 í einbýli, 33 einstaklingar deila herbergjum með öðrum að frátöldum hjónum eða pörum. Hjón eða pör í sambúð í dvalarrými eru 53. Einstaklingar í hjúkrunarrými eru aftur samtals 2.291. Af þeim eru 1.265 í einbýli, 954 deila herbergjum með öðrum og hjón eða pör eru 36.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort áformað sé að endurskoða löggjöf um málefni aldraðra og banna að aldraðir deili herbergjum með öðrum sé ekki um maka eða sambýling að ræða.

Í 14. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, segir um stofnanir að við hönnun skuli þess sérstaklega gætt að stofnunin sé heimilisleg og að sem flestir íbúar hafi eigið herbergi. Stefnan er því skýr þó að ekki sé í lögunum lagt blátt bann við því að aðrir en makar deili saman herbergi. Viðhorf og kröfur hvað þetta varðar hafa breyst hratt. Aftur á móti eru margar öldrunarstofnanir komnar til ára sinna og bera enn vitni eldri viðhorfum þegar ekki þótti tiltökumál að aldraðir væru tveir eða fleiri saman í herbergi, og slíkt var fremur regla en undantekning.

Á undanförnum árum hefur verið ráðist í umfangsmiklar breytingar og endurbætur á mörgum þessara stofnana sem hafa falið í sér að færa aðstæður í nútímalegra horf og m.a. fækka tveggja manna herbergjum og fjölbýlum en fjölga einbýlum. Enn er því miður mikið ógert í þessum efnum og því verður haldið áfram á þessari braut enda er það í samræmi við þá stefnu sem mörkuð er í lögum um málefni aldraðra.

Eins og áður segir spyr hv. þingmaður beinnar spurningar um hvort til standi að banna með lögum að aldraðir deili herbergjum nema um maka sé að ræða. Svarið við þeirri spurningu er að slíkt bann er ekki á dagskrá. Sem fyrr segir er stefnan hins vegar sú að sem flestir aldraðir á stofnunum hafi eigið herbergi og ég tel nauðsynlegt að fylgja þeirri stefnu fast eftir, bæði varðandi endurbætur á eldra húsnæði og ekki síður við byggingu nýrra stofnana. Það verður að segjast að vegna mikils skorts á hjúkrunarrými, einkum á höfuðborgarsvæðinu, hefur e.t.v. ekki verið lögð nógu mikil áhersla á þennan þátt og vissulega er þörf á því að gera betur. Bein boð eða bönn í þessum efnum tel ég hins vegar óþörf ef stefnan er skýr. Það hafa orðið umtalsverðar breytingar til bóta á síðustu árum og ég er þess fullviss að þróunin verður áfram hröð í takt við kröfur nútímans án þess að grípa þurfi til lagaboðs.

Ég vona, hv. þingmaður, að svar mitt hafi varpað einhverju ljósi á það málefni sem hér er til umræðu.