131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

414. mál
[13:14]

Þuríður Backman (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og svar hæstv. ráðherra. Dvalarheimili eru barn síns tíma en þau verða áfram nauðsynleg sem valkostur, sérstaklega þegar tekið er tillit til fjárhagsstöðu sveitarfélaganna eins og þau eru í dag og tekjustofna þeirra. Í þeim sveitarfélögum þar sem dreifbýli er mikið sé ég ekki að þeim verði í nánustu framtíð kleift að reka heimaþjónustu eins og flest þeirra vilja. Hjúkrunarrýmin eru of fá og þeim þarf að fjölga en það þarf að stórefla heimahjúkrunina og hafa það að markmiði í allri okkar vinnu, og sérstaklega að teknu tilliti til tekjustofna sveitarfélaganna, að þau geti sinnt þessu. Sem hluta af þessari umræðu þurfum við að hafa í huga að það verður að efla sjálfstæði aldraðra, bæði inni á stofnunum og ekki síður að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði og öryggi þessara einstaklinga.