131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Húðflúrsmeðferð eftir brjóstakrabbamein.

290. mál
[13:26]

Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina og að hún skuli hafa verið endurtekin núna og þakka fyrir þau svör sem hæstv. ráðherra bar fram þar sem hann upplýsti að reynt hafi verið að semja við lýtalækna um greiðslu fyrir húðflúrsmeðferð, sérstaklega á konum til að byggja upp svæði sem líkist geirvörtum og umgjörð geirvartnanna og eins augabrúnir. Það er eðlilega margt að varast hvað varðar það að fá húðflúrara til að vinna slík verk en ég mótmæli því að þetta skuli vera flokkað undir fegrunaraðgerð frekar en lýtalækningar þar sem það getur haft mjög djúpstæð áhrif á andlega heilsu konunnar að hafa geirvörtu og brjóst sem lítur vel út. Ég (Forseti hringir.) hvet hæstv. ráðherra til að líta á þetta sem eitt og hið sama.