131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:35]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þuríður Backman hefur beint til mín fyrirspurn um aðgerðir til að draga úr offitu barna. Hv. þingmaður vekur máls á afar mikilvægu máli. Þekkt er að offita barna fer vaxandi bæði hérlendis og erlendis. Talið er að 15–20% íslenskra barna á aldrinum 2–15 ára séu of þung. Fylgikvillar þess eru vel þekktir og það er mikilvægt að spornað sé við eftir bestu getu. Ýmsar heilbrigðisstofnanir hafa beitt sér í þessu máli, heilsugæslustöðvar, Landspítali – háskólasjúkrahús auk Háskóla Íslands en af hálfu heilbrigðisstofnana leiðir Lýðheilsustöð starfið.

Lýðheilsustöð skipuleggur um þessar mundir þróunarverkefni þar sem brugðist verður við þeirri óheillaþróun sem endurspeglast í ofþyngd barna og unglinga. Brýn ástæða er til að beina sjónum sínum að ofneyslu og hreyfingarleysi og hættunni sem þessu fylgir. Árangursríkar leiðir til að snúa þessari þróun við eru markvissar forvarnir og heilsuefling með megináherslu á breytingu á matarvenjum og aukna hreyfingu. Meginþema þessa verkefnis verður því hreyfing og góð næring. Markhópur verkefnisins eru börn, unglingar og fjölskyldur þeirra. Tilgangurinn er að stuðla á jákvæðan hátt að heilbrigðum lífsháttum barna, ungs fólks og fjölskyldna þeirra með áherslu á aukna hreyfingu og bætt mataræði. Leitast verður við að auka þekkingu einstaklinga á þeim þáttum sem þarna hafa áhrif auk þess að stuðla að bættri aðstöðu til almennrar heilsueflingar.

Aðstæður barna og unglinga mótast af samfélaginu í heild. Ef ætlunin er að bæta lífshætti æskufólks er samvinna lykilorðið. Til þess að árangur náist í slíku forvarnaverkefni þarf að tryggja samstarf ríkis og sveitarfélaga, þverfaglega nálgun almennings, virkja viðeigandi hagsmunaaðila svo sem stéttarfélög, íþróttahreyfinguna, atvinnulífið, viðskiptalífið o.fl.

Í maí sl. sendi Lýðheilsustöð bréf til allra sveitarfélaga í landinu til að kanna áhuga þeirra á að taka þátt í áðurgreindu og hafa u.þ.b. 20 sveitarfélög sýnt verkefninu áhuga. Það skal tekið fram að verkefnið getur gagnast öllum sveitarfélögum jafnvel þó að þau taki ekki beinan þátt í sjálfu þróunarverkefninu. Verkefnið er hafið og hefur verið kynnt almenningi en fyrri hluta þess lýkur að tveimur árum liðnum og seinni hlutanum eftir sex ár. Hvert sveitarfélag mun móta eigin stefnu og aðgerðaráætlun varðandi lífshætti barna með áherslu á aukna hreyfingu og bætt mataræði. Nálgun getur því verið mismunandi í samræmi við mismunandi aðstæður sveitarfélaga. Starfsmaður Lýðheilsustöðvar hefur umsjón með verkefninu, vinnur að uppbyggingu þess og er tengiliður við sveitarfélögin. Lýðheilsustöð skipuleggur námskeiðið fyrir sveitarfélög sem taka þátt og heldur sameiginlega fundi með sveitarfélögunum. Lýðheilsustöð vinnur að kynningu verkefnisins á landsvísu, gengst fyrir ýmiss konar viðburðum og birtir fræðsluefni.

Lýðheilsustöð mun meta árangur verkefnisins þar sem gert verður stöðumat í upphafi og síðan eftir tvö og sex ár. Árangursmatið verður tvíþætt. Í fyrsta lagi verða kannaðir þættir sem snúa að skólastarfi og verða spurningalistar sendir til skólastjórnenda. Í öðru lagi verður gerð könnun á heilsutengdum lífsháttum barna og unglinga. Einnig verður óskað eftir gögnum um fæðu og þyngd barna og skólaheilsugæslu hvers sveitarfélags. Þar sem skólinn er kjörinn vettvangur til að hafa áhrif á bæði neyslu- og hreyfivenjur barna gaf Lýðheilsustöð á síðasta ári út handbók fyrir skólamötuneyti sem ætluð er starfsfólki og forsvarsmönnum mötuneyta. Markmiðið með útgáfunni var að stuðla að því að börnum sé boðið upp á góðan og hollan mat í skólum.

Á fundi norrænu ráðherranefndarinnar sem haldinn var á Akureyri í ágúst sl. var samþykkt að móta norræna aðgerðaráætlun til að bæta heilsu og auka lífsgæði með því að bæta næringu og auka hreyfingu. Í aðgerðaráætlun verður ekki síst lögð áhersla á það sem hægt er að gera til að bæta næringu og auka hreyfingu hjá börnum og tekið heildstætt á vandamálinu. Tekið verður fyrir hvað hinir ýmsir aðilar geta gert svo sem hið opinbera, sveitarfélögin, atvinnulífið, frjáls félagasamtök og einstaklingarnir sjálfir til að bæta næringu og auka hreyfingu. Settur var á fót vinnuhópur til að vinna að þessu verkefni og á Lýðheilsustöð fulltrúa í hópnum. Gert er ráð fyrir að vinna við mótun stefnunnar fari fram á árinu og hún verði lögð fyrir Norrænu ráðherranefndina í desember 2005.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur látið sig þetta vandamál varða enda vaxandi byrði á heilbrigðisþjónustu margra landa. Samþykkt hefur verið aðgerðaráætlun um næringu, hreyfingu og heilsu. Eitt af mörgu sem tekið er fyrir í áætluninni er markaðssetning og auglýsing á matvælum. Ég tel mikilvægt að halda vöku sinni um þær reglur sem nú lúta að auglýsingu og markaðssetningu matvæla fyrir börn.