131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og fagna átaki Lýðheilsustöðvar í baráttunni við offitu barna. Það er mjög mikilvægt verk sem þar er fram undan. Þyngdaraukning barna á Íslandi er orðin mjög alvarleg. Fimmta hvert barn er yfir kjörþyngd á Íslandi. Það var eitt af hverjum 100 fyrir nokkrum áratugum. Það þarf víðtækt átak í samfélaginu. Það þarf fræðslu, hvatningu til hreyfingar, fræðslu um hollt matarræði o.s.frv. Það þarf sem sagt samfélagslegt átak til að berjast við þetta ástand.

Hvað varðar aðra spurninguna þá hefur Evrópusambandið gefið öllum framleiðendum og auglýsendum eitt ár til að hætta auglýsingum um ruslfæði sem beint er að börnum, ella verði sett í lög að það verði bannað og við megum auðvitað búast við því að það komi sem tilskipun hingað fyrr eða síðar. Ég vonast til þess að áður en svo verði munum við taka á þessum málum og samþykkja mitt ágæta þingmál sem liggur fyrir þinginu um að settar verði (Forseti hringir.) reglur og að komist verði að samkomulagi um að beina ekki auglýsingum um óhollustu til barna.