131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Aðgerðir til að draga úr offitu barna.

326. mál
[13:44]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða um mál sem skipta verulegu máli, annars vegar offitu barna og hins vegar auglýsingar sem beint er að börnum. Þetta eru hvort tveggja mál sem ég m.a. fjallaði um á síðasta kjörtímabili. Það er ljóst að rannsóknir benda til þess að fimmtungur íslenskra barna er of þungur og 5% eiga við verulegan vanda að stríða og eru of feit. Það má segja að þetta sé eitt stærsta vandamál nútímans og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sérstaklega greint það sem næsta verkefni sitt.

Það verður að segjast eins og er að mér brá verulega þegar ég skoðaði upplýsingar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þar sem staða þjóða varðandi offitu barna og offitu þjóðar er sett upp í súlurit og þar vorum við meðal efstu þjóða. Það er veruleg þörf á átaki og ég fagna því ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra áðan varðandi það sem Lýðheilsustöð er að gera núna.