131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.

345. mál
[13:58]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hv. fyrirspyrjandi kom inn á það í ræðu sinni að reykingar væru afar algengar í nágrannalöndum okkar og á Grænlandi er það svo að 80% 16 ára og eldri reykja og er talið að reykingar séu höfuðástæða flestra sjúkdóma á Grænlandi auk þess sem kynsjúkdómar eru mjög algengir, en bæði varðandi reykingar og kynsjúkdóma höfum við Íslendingar af nokkru að miðla, þ.e. við getum kennt Grænlendingum og Færeyingum ef svo ber við aðferðafræði við varnir. Okkur hefur vegnað mjög vel að berjast gegn reykingum með því að miðla áróðri og fræðslu til grunnskólabarna. Ég tel að það sé að mörgu leyti heppilegra samstarf að miðla aðferðafræði til nágrannalanda okkar en að ætla að senda starfsfólk því við erum á margan hátt ekki aflögufær með starfsfólk en aðferðafræðina getum við kennt.