131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.

345. mál
[13:59]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er haldið á lofti merkilegri þingsályktunartillögu sem vert er að veita athygli. Ég tel að það sé mjög nærtækt að við eigum samstarf við þessar vinaþjóðir okkar og nágrannaþjóðir. Ég tel að við getum lagt mikið af mörkum til að bæta heilbrigði þeirra og það á ekki síst við í Grænlandi eins og fram hefur komið hjá fyrri ræðumönnum. En Grænlendingar eiga við mjög mörg, mikil, margvísleg og flókin vandamál að stríða sem við getum aðstoðað þá við.

Það má náttúrlega segja að í þessu samstarfi erum við eðli málsins samkvæmt meiri veitendur en þiggjendur, en ég held líka að þarna liggi ákveðin tækifæri fyrir okkur Íslendinga varðandi útflutning á heilbrigðisþjónustu. Við eigum gott heilbrigðiskerfi og það er mjög nærtækt fyrir okkur að veita nágrönnum okkar aðstoð í flóknum vandamálum hvort sem það er á sviði forvarna eða flóknari aðgerða. Við erum með það stórt heilbrigðiskerfi að við erum aflögufær að takast á við fleiri verkefni og ég held að við eigum að líta í þessar áttir.