131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Samvinna Vestur-Norðurlanda í heilbrigðismálum.

345. mál
[14:00]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin en var þó ekki alls kostar ánægður með þau. Hæstv. ráðherra fór yfir völlinn ef svo má segja og talaði um það sem búið er að gera. Það er í sjálfu sér gott og blessað og ég ætla ekki að draga neitt úr því. Ég var hins vegar ekki ánægður með það sem gert hefur verið frá sumrinu árið 2003 og hygg að ef betur yrði kannað þá væri hægt að finna áhugaverða fleti á samvinnu þessara landa í heilbrigðismálum.

Hv. þm. Ásta Möller kom með mjög athyglisverðan punkt varðandi útflutning á heilbrigðisþjónustu. Á Grænlandi er mikill skortur á læknum, hjúkrunarfólki og sérfræðingum. Samkvæmt mínum upplýsingum eru t.d. engir augnlæknar á Grænlandi. Þeir koma hins vegar til Grænlands með margra mánaða millibili og eru þar í nokkrar vikur. Síðan eru þeir horfnir á nýjan leik. Þannig er ástandið mjög víða. Ég man alltaf eftir því að við þingmenn heimsóttum sjúkrahúsið í Ilulissat á vesturströnd Grænlands. Þar voru bara starfandi danskir læknar. Þeir tjáðu okkur að enginn Grænlendingur hefði á þeim tíma læknismenntun. Enginn. Þá var þó einn að ljúka prófi en það var allt og sumt.

Þannig er ástandið þar og alveg ótrúlegt, í því stóra landi sem er svo nálægt okkur, að ástandið skuli nánast eins og var hér á Íslandi einhvern tímann á 19. öld. En þannig er það því miður.

Mig langar að lokum að nota tækifærið til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra aðeins nánar. í þingsályktunartillögunni er lagt til að heilbrigðisráðuneyti Íslands og Færeyja og heilbrigðisskrifstofa Grænlands láti útfæra samvinnulíkan varðandi þessa þætti. Einnig er lagt til að stjórnvöld þessara landa láti árlega taka saman skýrslu um framvindu samstarfs þessara landa á sviði heilbrigðismála. Þessi skýrsla yrði síðan lögð fyrir þing landanna. (Forseti hringir.) Hefur þetta gleymst í þessu máli?