131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Komur á heilsugæslustöðvar o.fl.

253. mál
[14:05]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Það er almennt viðurkennt að heilsugæslan eigi að geta sinnt allt að 85% af allri þjónustuþörf sjúklinga. Það er líka almenn sátt um það, þótt sjúklingar hafi val um hvar þeir leiti eftir þjónustu, að heilsugæslan sé fyrsti viðkomustaðurinn. Það má líka ætla að ódýrara sé, bæði fyrir sjúklinga og ríkissjóð, að fólk leiti til heilsugæslunnar í þeim tilvikum sem segja má að ekki sé þörf á að leita annað.

Með bættu aðgengi að heilsugæslunni, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu síðustu missirin, með fjölgun lækna og heilsugæslustöðva, með rýmri opnunartíma og síðdegisvöktunum, höfum við bætt aðkomu að þjónustu heilsugæslunnar við sjúklinga og faglega þjónustu við þá og líka komið til móts við þá fjárhagslega.

Spurningar mínar til hæstv. heilbrigðisráðherra lúta í raun allar að þessu og m.a. að því að fá fram upplýsingar um hvaða áhrif bætt aðgengi að heilsugæslunni, rýmri opnunartími, fjölgun lækna og fjölgun heilsugæslustöðva, hefur haft. Hvaða áhrif hefur það haft á aðra þjónustu, önnur þjónustuúrræði sem til boða standa í heilbrigðiskerfinu?

Þess vegna hef ég lagt, frú forseti, fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra hálfleiðinlegar spurningar sem allar fela í sér að svörin verða tölulegar upplýsingar, hlutfalls- og krónutölur. Ég tel að þau gætu sýnt fram á hvernig þessi þróun er hjá okkur. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hefur komum á heilsugæslustöðvar fjölgað og ef svo er, hve mikil er fjölgunin?

2. Hefur komum á bráða- og slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og Læknavaktina fækkað og ef svo er, hve mikil er fækkunin?

3. Hvernig skiptast komur á heilsugæslustöðvar á dagvinnutíma og síðdegisvaktir og hver er hlutfallsleg aukning á síðdegisvöktum?

4. Hver er munurinn á kostnaði ríkisins annars vegar og sjúklinga hins vegar af hverri komu sjúklings á heilsugæslustöð, Læknavaktina og bráða- og slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss?