131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Komur á heilsugæslustöðvar o.fl.

253. mál
[14:08]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Reykv. s. hefur beint til mín fyrirspurnum um komur á heilsugæslustöðvar.

Í fyrsta lagi spyr hún hvort komum á heilsugæslustöðvar hafi fjölgað og hve fjölgunin sé mikil ef svo er.

Samkvæmt upplýsingum sem heilbrigðisráðuneytið hefur fengið frá heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu um komutölur á árinu 2001–2003 kemur í ljós að komum hefur fjölgað nokkuð á tímabilinu. Árið 2001 voru komur til lækna samtals 220.883. Árið 2003 voru þær 234.574. Aukningin á þessu tímabili nemur 6,2%. Framangreindar upplýsingar taka til Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsumdæmis, Seltjarnarness og á heilsugæslustöðvar í Reykjavík á eftirtöldum svæðum: Í Hlíðum, Efstaleiti, Efra-Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi og Mjódd.

Hv. þingmaður spyr einnig hvernig komur á heilsugæslustöðvar skiptist á milli dagvinnutíma og síðdegisvakta og hver hafi orðið hlutföll á aukningu á síðdegisvöktum.

Ef framangreindar tölur eru skoðaðar út frá slíkri skiptingu, kemur í ljós að komur til lækna á dagvinnutíma voru 190.134 árið 2001, en hafði fækkað í 185.395 á árinu 2003. Hlutfallsleg fækkun nemur 2,5%. Upplýsingar um komur utan dagvinnutíma sýna að árið 2001 voru þær samtals 17.130 en hafði fjölgað í 35.871 komu árið 2003. Hlutfallslega fjölgaði því komum utan dagvinnutíma á þessu tímabili um 109%.

Þá spyr hv. þingmaður hvort komum á bráða- og slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss og Læknavaktina hafi fækkað og ef svo væri, hve mikið.

Því er fyrst til að svara að komum hefur fjölgað en ekki fækkað á bráða- og slysadeild Landspítalans. Árið 2001 voru komur á slysa- og bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss 65.714. Árið 2002 voru þær litlu fleiri, eða 65.859. Árið 2003 voru komurnar 66.369. Aukningin á tímabilinu 2001–2003 nemur 1%. Samkvæmt nýjustu stjórnunarupplýsingum um sjúkrahúsið fyrir tímabilið janúar til nóvember 2004 hefur komum á slysa- og bráðadeild fjölgað miðað við sama tímabil árið áður úr 63.755 í 66.500. Hlutfallsleg fjölgun nemur 4,3%.

Læknavaktin sinnir móttöku, vitjunum og símaráðgjöf fyrir heilsugæslustöðvarnar á Stór-Reykjavíkursvæðinu utan dagvinnutíma, þ.e. um kvöld, nætur og helgidaga. Árið 2001 voru komur á Læknavaktina rúmlega 48.992 árið 2002 voru þær 52.600 og árið 2003 voru þær 48.779. Komum fjölgaði lítillega á ný árið 2004 og voru þá um 50.700.

Loks spyr hv. þm. hver munurinn sé á kostnaði ríkisins annars vegar og sjúklinga hins vegar á hverri komu sjúklings á heilsugæslustöð, Læknavaktina og bráða- og slysadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Hvað varðar kostnað sjúklinga liggja svörin fyrir í reglugerð nr. 1030/2004 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Almennt gjald fyrir komu á heilsugæslustöð á dagvinnutíma er 700 kr. Utan dagvinnutíma er almennt gjald sjúklings á heilsugæslustöð 1.750 kr. Það er sama gjald og sjúklingar greiða fyrir komu á Læknavaktina. Fyrir komu á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa er almennt gjald sjúklings 3.320 kr.

Í september 2002 kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar „Fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu“, sem er stjórnsýsluúttekt stofnunarinnar á rekstri heilsugæslunnar í Reykjavík. Þar er gerður samanburður á einingaverði vegna komu til læknis á heilsugæslustöðvum í Reykjavík til sjálfstætt starfandi heimilislækna og Læknavaktarinnar árið 2001. Í skýrslunni kemur fram að stjórnendur heilsugæslunnar í Reykjavík meti kostnað við hverja komu í hæsta lagi 3.000 kr. en að mati Ríkisendurskoðunar er kostnaðurinn eitthvað hærri, eða allt að 3.500 kr.

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar er kostnaður við hverja komu til Læknavaktarinnar talinn um 2.584 kr. Í skýrslunni er gerð þó ítarleg grein fyrir forsendum að baki útreikningum á einingaverði.

Hvað varðar Landspítala – háskólasjúkrahús liggur ekki fyrir aðgengileg skipting á komum á slysa- og bráðadeild sem gefur kost á samanburði einingaverðs við komur á heilsugæslustöðvar.

Herra forseti. Ég vona að svar mitt hafi verið upplýsandi fyrir fyrirspyrjanda og aðra.