131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Komur á heilsugæslustöðvar o.fl.

253. mál
[14:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætlaði bara að gera stutta athugasemd og taka undir með hv. þm. Ástu Möller þar sem hún talaði hér um hvernig við þyrftum að taka á þjónustunni í heilsugæslunni. Það þarf að taka á þeim þætti, ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni, og minna aðeins á umræðu sem hefur verið um heilbrigðisþjónustuna og aukna þjónustu hjá heilsugæslunni eins og það að vera með aukna símaþjónustu og nota nútímaúrræði eins og netið betur í þjónustunni í heilsugæslunni eins og við höfum oft rætt. Ég held að það mundi líka breyta ýmsu.

Varðandi auknar komur á bráðamóttökuna er það nú bara þannig að það er mjög erfitt að koma fólki inn á t.d. hjúkrunarheimili eða í þjónustu öðruvísi en að fara í gegnum bráðamóttökuna vegna þess hvernig ástand er á hjúkrunarheimilum, inni á spítölunum o.s.frv. Það er oft verið að vísa á þá leið til að koma fólki inn í þjónustu. Það gæti líka verið ein af ástæðunum fyrir því hvernig þessar tölur hafa þróast.