131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Komur á heilsugæslustöðvar o.fl.

253. mál
[14:19]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu.

Varðandi heilsugæsluna almennt er sú stefna vissulega uppi að beina fólki inn í þessa grunnþjónustu og inn í þennan fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu. Til þess þarf aðgengi að henni að vera gott. Við höfum verið að vinna að því að bæta aðgengið á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með nýrri heilsugæslustöð í Kópavogi og heilsugæslustöð í Voga- og Heimahverfi sem væntanlega kemur í gagnið innan tíðar. Það held ég að dragi ekki úr eða útrými síðdegisvöktunum. Hins vegar vantar greiningu á því, það er alveg rétt, hvað rekur fólk inn á síðdegisvaktirnar. Er það vegna þess að það hefur ekki aðgengi yfir daginn eða er það einfaldlega vegna þess að það vill frekar og hefur frekar tækifæri til þess vinnu sinnar vegna að heimsækja heilsugæsluna eftir vinnutíma, þ.e. á þessum seinni tíma? Við höfum kannski ekki viðhlítandi upplýsingar um það og sömuleiðis hvað veldur aukinni aðsókn á bráðadeildir spítalans.

Það eru sem betur fer aukin umsvif í samfélaginu. Það getur verið að aukin aðsókn að bráðadeild spítalans sé aukin einmitt vegna þessa. Ég nefni bara eitt, við fáum núna 340 þús. ferðamenn til landsins á ári. Þeim hefur fjölgað um 100 þús. á fáeinum árum. Mér þykir ótrúlegt annað en að þessir ferðamenn þurfi einhvers við hjá heilbrigðiskerfinu, þurfi að koma til heilsugæslu eða á spítala. Við þurfum auðvitað að taka þetta allt saman með í reikninginn.

Aðalatriðið er að missa ekki sjónar á markmiðinu, að aðgengið að heilsugæslunni sé gott. Ef við eigum að jafna komugjöldin vantar okkur auðvitað fjármagn til þess.