131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Varðveisla gamalla skipa og báta.

428. mál
[14:31]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að málið skuli tekið upp. Nú hefur hæstv. menntamálaráðherra setið í rúmt ár að ég hygg og óska ég henni til hamingju með það.

Ég held að það þurfi að vinna svolítið öðruvísi að málinu en hæstv. ráðherra lýsti hér vegna þess að samþykkt þingsályktunartillögunnar frá 9. maí 2000 gengur út á að tryggja fjármögnun úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Hvar er það mál statt? Ef hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði verið við heilsu hefði hann væntanlega mælt fyrir því á mánudag eða þriðjudag.

Hvað erum við að tala um þar? Sennilega um 400 millj. kr. eign í Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Hvernig varð hann til? Með gjaldtöku af flotanum á sínum tíma.

Það voru fimmmenningar sem lögðu fram frumvarpið og ég flutti á þinginu á sínum tíma, að horft væri á þessa fjármuni vegna þess að þar væri eðlilegur farvegur fyrir það sem áður hafði verið notað til úreldinga skipa til að varðveita það sem við vildum varðveita. Ég bendi hæstv. menntamálaráðherra á að missa ekki af þessum peningum því hæstv. sjávarútvegsráðherra gerir ráð fyrir að taka þetta til sín (Forseti hringir.) og útgerðin gerir kröfu um að fá þessa peninga. Það er best að grípa gæsina meðan hún gefst.