131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Menntunarmál geðsjúkra.

100. mál
[14:41]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera eins og hv. fyrirspyrjandi og fara aðeins yfir hvernig málin hafa þróast, því þó ég hafi gert það síðast þegar ég ræddi sama mál undir liðnum um störf þingsins við hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur hefur náttúrlega eitt og annað gerst síðan.

Fulltrúar Fjölmenntar og Geðhjálpar áttu á síðasta ári í viðræðum við ráðherra og embættismenn menntamálaráðuneytis, félagsmála- og heilbrigðisráðuneytis um fjármögnun samstarfsverkefnis þessa tveggja aðila sem varðar menntun og starfsendurhæfingu geðsjúkra. Verkefnið var sett á laggirnar árið 2003 að frumkvæði Fjölmenntar og Geðhjálpar. Fjármögnun verkefnisins byggði á framlagi Fjölmenntar, en Fjölmennt fær á fjárlögum um 150 millj. kr. til þess að sinna fræðslumálum fatlaðra samkvæmt þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið með framlagi Geðhjálpar, sem m.a. lagði til aðstöðu til starfseminnar. Auk þess var styrkur veittur frá starfsmenntaráði félagsmálaráðuneytisins.

Í kjölfar áskorunar Geðhjálpar í bréfi til ráðherra ríkisstjórnarinnar um að opinberir aðilar legðu fé til verkefnisins ákváðu ráðuneytisstjórar þeirra ráðuneyta sem ég gat um áðan að láta fara fram úttekt á starfseminni svo varpa mætti betra ljósi á þörfina fyrir slík úrræði. Það kom alveg skýrt fram í þeirri úttekt að þetta er mjög þarft og gott verkefni sem nýtist jafnframt þeim sem það er ætlað að þjóna afar vel. Einnig var bent á veikan fjárhagsgrundvöll verkefnisins.

Ljóst var á þeim tíma að ráðuneytin hefðu engar samningsbundnar skyldur til þess að veita starfseminni fjárhagslega liðveislu því það var samningur á milli Fjölmenntar og ráðuneytisins sérstaklega um fræðslumál fatlaðra. Það má í rauninni segja að á þeim tímapunkti hafi þjónustan alfarið verið á ábyrgð Fjölmenntar og Geðhjálpar og það er vel að að slíku frumkvæði var staðið.

Að baki Fjölmennt standa Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp. Þau hafa staðið einkar vel að fræðslumálum fatlaðra og eðli málsins samkvæmt reyna þau að sjá hvernig þau geta sinnt því hlutverki sem þeim er ætlað að sinna.

Í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar, menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sl. sumar var ákveðið að veita samtals 6 millj. kr. til samstarfsverkefnisins milli Fjölmenntar og Geðhjálpar og var einnig ákveðið að hafnar yrðu viðræður milli ráðuneytisins og Fjölmenntar um gildandi þjónustusamning á milli þessara aðila, þ.e. að taka upp samning sem var í gildi á milli aðilanna.

Umræðurnar fóru fram í nóvember á sl. ári og alveg ljóst af minni hálfu og hálfu ráðuneytisins að það er eðlilegast í þessu máli öllu saman að Fjölmennt sinni fullorðinsfræðslu geðfatlaðra eins og annarra fatlaðra einstaklinga. Það er mín skoðun.

Í stofnun Fjölmenntar segir m.a. að markmið hennar sé að skipuleggja námskeið fyrir fullorðið fatlað fólk sem ekki eigi kost á starfsþjálfun hjá öðrum símenntunaraðilum. Ráðuneytið telur því augljóst að geðfatlaðir heyri undir þann hóp sem Fjölmennt á að sinna. Í viðræðum við forustumenn Fjölmenntar var sá skilningur ráðuneytisins líka staðfestur. Það verður líka að segjast eins og er að Fjölmennt taldi í viðræðunum, og það kom alveg skýrt fram, að ekki væri hægt að halda uppi óbreyttu námsframboði fyrir geðfatlaða með því fjármagni sem var til umráða og niðurstaða viðræðna ráðuneytisins og Fjölmenntar varð því að ef halda ætti áfram námi fyrir geðfatlaða í sama mæli og áður þyrfti hreint og klárt til þess aukið fjármagn. Þetta var í nóvember. Við áttum síðan, eins og ég gat um áðan, samræður í þingsal, ég og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Í desember á nýliðnu ári var ákveðið í ríkisstjórninni að veita 4 millj. kr. til viðbótar vegna verkefnisins og það varð til þess að nám hófst fyrir geðfatlaða á vegum Fjölmenntar í upphafi þessa árs. Einnig var ákveðið af hálfu ríkisstjórnarinnar að menntamálaráðuneytið og ríkisstjórnin tryggðu Fjölmennt fjármagn á þessu ári, 2005, og er þar um að ræða um 12 millj. kr. í heild til þessa brýna og mikilvæga verkefnis.