131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Menntunarmál geðsjúkra.

100. mál
[14:49]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál er mjög mikilvægt og eins og fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra er það í ákveðnum farvegi. Ég tek undir það að mjög mikilvægt er að tryggja að þetta verkefni verði til framtíðar. Það kom jafnframt fram í máli hæstv. ráðherra að úttekt sem menntamálaráðuneytið og fleiri aðilar gerðu á þessu verkefni sýndi að það sé mjög þarft, þetta sé mjög gott verkefni sem nýtist mjög vel. Ég hef einnig kynnt mér það og ég gef því hina bestu einkunn. En þetta er líka gott dæmi um farsælt verkefni sem rekið er af sjálfstæðum samtökum og grasrótarstarfi þar sem tekið er mið af þeim aðilum sem þurfa á því að halda þannig að það er alltaf tryggt að það sé í samræmi við þörf á hverjum tíma. Ég tel að mikil þörf og mikil nauðsyn sé að halda vel utan um slík verkefni og hlúa vel að þeim.