131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Menntunarmál geðsjúkra.

100. mál
[14:50]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir það um leið og ég þakka umræðuna og svörin að nauðsynlegt er að koma þessum málum í fastar skorður, finna þeim stað í skólakerfinu eins og öðru námi. Þetta vekur upp hugrenningar um stöðu símenntunarstöðvanna sem er ekki ólíkt komið fyrir, að þurfa að hlaupa á eftir fjármagni, í því tilfelli til fjárlaganefndar, á hverju ári og reksturinn í uppnámi ef eitthvað út af ber. Í fyrsta lagi þarf að tryggja verulegt aukið fjármagn. Það sem kemur er ágætt og það er gott að komið var í veg fyrir það uppnám sem málið var í í desember.

Það þarf að tryggja aukið fjármagn, gera langtímasamning og finna þessu fastan stað í skólakerfinu þannig að þetta nám sé eins og annað nám og eigi heima þar en ekki sérskilgreint eins og nú er gert. En það er langtímaverkefni. Aðalmálið er að ljúka þjónustusamningi, langtímasamningi, finna þessu fastan stað í skólakerfinu líkt og annarri fullorðinsfræðslu, skilgreina þetta upp á nýtt eins og aðra fullorðinsfræðslu sem símenntunarstöðvarnar hafa með að gera í dag og hafa unnið mikið og ákaflega gott starf víða um land, á höfuðborgarsvæðinu sem og úti á landi, hafa opnað fullorðnu fólki nýjar og aðrar dyr að aukinni menntun og nýjum tækifærum. Fullorðinsfræðsla geðfatlaðra er jafnmikilvæg og á í sjálfu sér að heyra undir sömu lögmál, og fullorðinsfræðslu bæði símenntunarstöðvanna og fræðslu geðfatlaðra þarf að finna fastan stað og gera langtímasamning um þannig að þessum málum verði vel fyrir komið og leggja þarf til þess verulegt aukið fjármagn. Miðað við hvað þetta er mikilvægt samfélagsverkefni blandast engum hugur um að hér er um lága fjármuni að ræða.