131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Mismunandi þarfir drengja og stúlkna í grunnskólum.

430. mál
[15:03]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og svörin frá hæstv. ráðherra. Það er skemmtilegt að þetta skuli bera upp á þennan dag, daginn eftir að við vorum í heimsókn í skólanum hjá Margréti Pálu, sem eins og fram hefur komið hér var ákaflega ánægjuleg. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að hvetja ráðherra menntamála til að kynna sér vel það sem fram fer í hjallastefnunni hjá Margréti Pálu, reyndar á báðum skólastigum þar sem hún hefur tekið að sér að koma upp skólum.

Mér er ýmislegt minnisstætt úr heimsókninni í gær. Þegar ég var að fara spurði ég hvernig henni gengi að blanda saman börnum úr hefðbundnum leiksólum og þeim sem hefðu komið úr leikskólum hjallastefnunnar. Hún sagði að það tæki örfáar vikur ef passað væri upp á að hlutfall þeirra nýkomnu væri ekki of hátt, en börn sem kæmu úr hjallastefnuleikskólunum væru fljót að ala þau nýkomnu upp ef jafnvægið væri í lagi.