131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Mismunandi þarfir drengja og stúlkna í grunnskólum.

430. mál
[15:04]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunum.

Svörin eru svolítið skrýtin og svona í stíl við það sem hæstv. menntamálaráðherra kemur stundum með hér inn á þingið, þ.e. ansi langar greinargerðir um eiginlega ekki neitt. Þessi greinargerð var um að sú nefnd sem Alþingi samþykkti árið 1998 að yrði stofnuð með tiltekinni dagskrá, með tilteknu erindi, hafi að vísu verið skipuð en síðan hafi hún gefist upp og ekkert út úr henni komið, eða réttara sagt að hún hafi verið svo dugleg að hún hafi komið einhverjum tilteknum hlutum inn á aðalnámskrá en gefist svo algjörlega upp á öðrum hlutum vegna þess að svo miklar upplýsingar skorti. Síðan kemur eitthvað um Námsmatsstofnun í framhaldi af PISA-skýrslunni og um það að hinn nýi háskóli Verslunarráðsins búi að stórum gagnagrunni.

Það sem eftir stendur af þessu er að menntamálaráðherrarnir sem hér um ræðir hafa brugðist við að framfylgja ályktun frá Alþingi Íslendinga. Þegar það gerist — stundum kemur það fyrir að aðstæður eru þannig að ekki er hægt að fylgja þeim fram — þá eiga ráðherrarnir auðvitað að koma hér á þingið og gera grein fyrir því hvers vegna ekki sé hægt að fylgja þeim fram og hvað annað sé þá gert á meðan.

Ég vil svo segja það að hinu leytinu af því ég er að skamma ráðherrann fyrir þetta að mér heyrist þó á ræðu hennar að hún hafi einhvern skilning á þeim hlutum sem hér liggja undir. Ég tel að henni væri sómi að því að hefja aftur þetta starf, ekki til þess að vera jaðarverk á einhverjum öðrum sviðum heldur að fjalla nákvæmlega um þetta: Hver er munurinn á drengjum og stúlkum í skólum okkar? Hvernig eigum við að breyta þeim og hvernig eigum við að breyta menntun kennara okkar til þess að fást við þann mun?