131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Mismunandi þarfir drengja og stúlkna í grunnskólum.

430. mál
[15:07]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er akkúrat það sem er búið að vera að gera núna á undanförnum árum. Mér finnst miður ef hv. þingmaður hefur ekki skilið að það er einmitt löngu hafið það verk að skoða sérstaklega hvaða munur er á námsþörf drengja og stúlkna í skólakerfinu. Það er þegar byrjað að huga að því hvernig hægt er að endurskilgreina kennaramenntun til framtíðar. Það starf er því löngu hafið.

Það var hreint út sagt hjákátlegt að vera hér í þingsal og hlusta á hv. þingmenn Samfylkingar þramma hver á fætur öðrum upp og tala um frábæran barnaskóla hjallastefnunnar. Mér finnst það sérstakt fagnaðarefni að þingmenn Samfylkingarinnar skuli sjá ljósið í því sem felst í þeim frábæra barnaskóla sem er, já hvar er hann? Hann er jú í Garðabæ. Það er nefnilega engin tilviljun að skólinn skuli vera í Garðabæ því það þurfti pólitískan kjark og pólitískt þor að leyfa starfsemi barnaskóla hjallastefnunnar. Ég bý í Hafnarfirði. Ég er með mín börn þar og þau fengu ekki þetta tækifæri því núverandi meiri hluti sem er undir forustu Samfylkingarinnar hafði ekki þann pólitíska kjark, þetta þor sem þurfti á að halda til að leyfa fólkinu í samfélaginu að fá þessi tækifæri. Frammi fyrir hvaða tækifæri standa börnin í Garðabæ og foreldrarnir? Auknu valfrelsi í skólamálum. Sumum börnum hentar að fara í svona skóla, svona frábæra skóla eins og Margrét Pála stendur fyrir, en öðrum börnum hentar betur að fara í aðra skóla. Það er einmitt lykillinn að þessu öllu saman. Það þarf pólitískan kjark til þess að heimila og leyfa einkaskólum, sjálfstæðum skólum, til þess að starfa án þess að jöfnum tækifærum til náms sé ógnað. Hvað er verið að gera í Reykjavík? Jú, maður les á baksíðu Moggans að Reykjavíkurborg ætlar hugsanlega að veita Landakotsskóla sama styrk, þ.e. eingöngu ef hann verður borgarskóli.