131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:23]

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í sambandi við þau lög sem sett voru um árið um málefni útlendinga og búseturétt þeirra, þá var þeim gert að sækja námskeið eða íslenskunám sem væri 150 kennslustundir. Það vantaði hins vegar í þann pakka að slíkt kostar auðvitað peninga. Enn sem komið er er ekki til námsefni eftir því sem mér skilst nema fyrir 50 stunda nám og það er ekkert samræmi á milli þess sem verið er að kenna því til viðbótar.

Mér skilst, eins og kom fram hér áðan, að námskeiðin kosti mikið og menntamálayfirvöld hafa ekki lagt til nægjanlegt fé til að gera fólki kleift að fara á þessi námskeið.

Í þessu eins og ýmsu öðru hefur verið bent á aðra. Mér fannst ekki koma nægilega fram í svörum hæstv. ráðherra áðan, (Forseti hringir.) með peningamálin. Hann talar um 5 milljónir, en þær hrökkva skammt.