131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga.

355. mál
[15:25]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar hans. Í svari hæstv. ráðherra kom fram að við erum komin það langt í dag að við erum að leggja grunninn með fjárframlagi nú á fjárlögum fyrir 2005 að undirbúningi þess að mennta kennarana, mennta leiðbeinendur, viðurkennda leiðbeinendur. Það segir sig í rauninni sjálft að við eigum jafnframt svolítið langt í land með að mæta þeim þörfum sem fyrir eru í samfélaginu.

Ég hlýt að undirstrika að í áframhaldandi vinnu að þessum málum sé lögð í fyrsta lagi áhersla á að tryggt sé nægjanlegt framboð um land allt. Í öðru lagi að gert sé ráð fyrir mismunandi þörfum útlendinganna, ekki bara eftir aldri þeirra og móðurmáli, heldur líka eftir lestrargetu. Í ljós hefur komið að sumir þessir útlendingar eru ekki einu sinni læsir. Það kallar á fólk með allt annan undirbúning og allt annað kennslu- og námsefni.

Svo vil ég líka draga það fram af því ég hef fulla trú á því út frá orðum ráðherra að við ætlum að ná í höfn í þessu máli, að ég held að raunveruleikinn sé sá að útlendingar sem vilja sækja þessar 150 kennslustundir sem hæstv. ráðherra gat um að væri ekki gengið fast á eftir, þurfa að endurtaka byrjendanámskeið. Þeir þurfa að taka sama námskeiðið þrisvar sinnum til að ná 150 stundum — og eftir stendur þá spurningin sem ég vil gjarnan beina til ráðherra — að það verði lagt mat á það hvort þessar 150 kennslustundir skili þessum árangri sem að er stefnt, þ.e. að auðvelda útlendingum aðlögun að íslensku samfélagi. Og ég vil fá að gleðjast sérstaklega yfir því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra hvað hann lagði mikla áherslu á gildi þess, ekki bara fyrir samfélagið, heldur fyrir útlendingana sjálfa, sérstaklega að tryggja að þeir einangruðust ekki í samfélagi okkar.