131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Smíði nýs varðskips.

368. mál
[15:41]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa undrun minni. Þegar maður skoðar söguna sést að þetta mál var komið í mjög fastan og ákveðinn farveg að því er virtist í dómsmálaráðherratíð Þorsteins Pálssonar og Sólveigar Pétursdóttur. Árið 1998 var mjög mikið talað um að fara ætti út í að smíða nýtt varðskip og þá var meira að segja búið að taka þá ákvörðun að ekki yrði leitað útboða heldur yrði samið beint við ákveðna aðila, m.a. hér á landi. Hinn 1. apríl árið 2000 var hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra Sólveigu Pétursdóttur kynnt smíðalýsing að nýju 105 metra löngu varðskipi. Útlitsteikningar lágu fyrir. Þetta skip átti þá að kosta 2,4 milljarða króna. Síðan er eins og ekkert hafi gerst og ég tel að það sé á margan hátt ámælisvert að menn skuli ekki hafa sýnt meiri festu í þessu máli, þ.e. að leita lausna til að finna út í hvaða farveg við viljum koma þessu máli, þ.e. hvernig við ætlum að hafa og efla skipakost Landhelgisgæslunnar í framtíðinni.

Ég var ekki alveg sáttur við svör hæstv. dómsmálaráðherra áðan. Mér fannst hann tala mjög óskýrt. Hann sagði í raun og veru ekki skýrt hvaða lausnir lægju á borðinu, hvað menn væru að hugsa í þessum málum. Var hann að tala um að það ætti að kaupa skip? Á að kaupa notað skip, á að taka skip á leigu eða á að fara út í nýsmíði? Við erum að leita eftir svörum við þessum spurningum.

Ég hef sjálfur varpað fram þeirri hugmynd, gerði það m.a. í viðtali við Ríkisútvarpið þann 24. júlí síðasta sumar, að við ættum að skoða þann möguleika að leigja skip. Ég sá að nýráðinn forstjóri Landhelgisgæslunnar varpaði þessari hugmynd fram í Fréttablaðinu fyrir örfáum dögum og ég tel að hún sé góðra gjalda verð og að við ættum hiklaust að skoða hana. Það er þó nokkur vinna að skoða þetta mál því að við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvernig við ætlum að útfæra þetta. Ef við ætluðum að leigja skip, m.a. erlendis frá, væri það til að mynda svolítið neyðarlegt ef það skip væri varðskip fyrir Íslendinga og sigldi kannski undir einhverjum hentifána.