131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þjónusta við innflytjendur.

356. mál
[15:45]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Í annað skiptið á þingfundi þessum ber ég fram fyrirspurn um málefni innflytjenda auk málefna útlendinga og íslenskukennslu. Eitt af því sem við verðum vör við í samskiptum okkar við útlendinga og útlendingasamfélagið hér er, eins og við öll þekkjum, að töluvert er kvartað yfir því að ráðuneytin vísi hvert á annað og málaflokkurinn mismunandi þarfir útlendinga sé ekki sameinaður innan stjórnsýslunnar, undir eitthvert eitt ráðuneyti. Öll þekkjum við umræðuna um atvinnuleyfin annars vegar og dvalarleyfin hins vegar. Þrátt fyrir mjög gott samstarf Vinnumálaskrifstofu og Útlendingastofnunar hafa menn enn þá orð á þessu.

Á dögunum var í umræðunni Gallup-könnun um fordóma gagnvart útlendingum. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði þá, frú forseti, að fyrir lægju drög að tillögum um heildarskipulag á þjónustu við innflytjendur og sérstökum hópi hefði verið falið að útfæra tillögurnar. Síðan sagði ráðherrann að hann ætti von á niðurstöðum fyrir áramót og tillögum um hvernig málefnum innflytjenda verði best fyrir komið í stjórnsýslunni til framtíðar.

Mér leikur auðvitað forvitni á að vita, frú forseti, hvað nefndarstarfinu líður. Margt annað er forvitnilegt varðandi heildartilhögun á málefnum innflytjenda innan stjórnsýslunnar en bara íslenskukennslan. Það væri því gaman ef ráðherrann gæti upplýst það. En fyrirspurn mín til hæstv. félagsmálaráðherra lýtur að því hvort gera megi ráð fyrir að þær tillögur sem hann vísaði til í ræðu sinni, um heildarskipulag þjónustu við innflytjendur og um fyrirkomulag þjónustunnar innan stjórnsýslunnar, taki líka til tilhögunar íslenskukennslu fyrir útlendinga.

Vert er að halda því til haga að útlendingahópurinn er stór og fólk með misjafnar þarfir. Í umræðunni fyrr í dag um fyrirspurn sem ég beindi til dómsmálaráðherra var aðeins talað um íslenskukennslu sem skilyrði búsetuleyfis en innflytjendur og útlendingar á Íslandi eru náttúrlega stór og fjölbreytilegur hópur. Eins og ég sagði í upphafi hefur útlendingasamfélagið á Íslandi m.a. bent á að erfitt sé að átta sig á hver beri ábyrgð á hverju. Svo sitja ráðherrar undir því í þessu máli eins og stundum áður að þeir vísi málaflokknum hver á annan.