131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Þjónusta við innflytjendur.

356. mál
[15:48]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz fyrir að taka þessi mál upp á þingfundi með þeim hætti sem raun ber vitni.

Til mín er beint ákveðinni spurningu. Eins og þegar hefur komið fram í umræðu um málefni útlendinga að undanförnu er að störfum samráðshópur á mínum vegum sem hefur það verkefni að fylgja eftir tillögum um framtíðarskipulag um málefni útlendinga, einkum hvað varðar félagslega þjónustu við þá. Í því felst m.a. að þjónustan verði samræmd um allt land. Hér er bæði átt við skipulag og rekstur þjónustunnar. Þessi hópur á enn fremur að fjalla um framtíðarskipulag á móttöku flóttamannahópa og starfsemi flóttamannaráðs.

Ég geri ráð fyrir, hæstv. forseti, að fá tillögur starfshópsins í hendur síðar í þessum mánuði. Hópnum er falið að fjalla um aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Þá er fyrst og fremst miðað við ýmsa almenna þjónustu svo sem félagsþjónustu, upplýsingamiðlun til innflytjenda, túlkun, söfnun upplýsinga, rannsóknir og ráðgjöf. Í honum er ekki fjallað um svið sem heyra afmarkað undir önnur ráðuneyti, svo sem heilsugæslu eða menntun, þar með talda íslenskukennslu. Félagsmálaráðuneytið lítur svo á að íslenskukennsla fyrir útlendinga, námsframboð, námsefni og kennsla, heyri undir menntamál og sé á forræði menntamálaráðuneytisins. Þar með rættist spá hv. þingmanns um að málefninu væri að vissu leyti vísað á annað ráðuneyti. Þrátt fyrir það geri ég mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að íslenskukennsla fyrir útlendinga, ekki síst fyrir börn og ungmenni, er afar mikilvægur þáttur í að tryggja farsæla aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Lágmarksgeta í íslensku er forsenda þess að einstaklingar fái tækifæri til að taka þátt í samfélaginu og að gagnkvæm aðlögun eigi sér stað.

Að mínu mati er augljóst að stjórnvöld þurfa að tryggja að útlendingar hafi aðgang að námskeiðum í íslensku. Þekking í íslensku er grundvallaratriði gagnvart því að ekki myndist einangraðir minnihlutahópar fólks sem er af erlendu bergi brotið.

Eitt af skilyrðum þess að útlendingur fái búsetuleyfi, en það felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, er að hann hafi sótt námskeið í íslensku, samanber 1. mgr. 15. gr. útlendingalaga. Þess má geta, hæstv. forseti, að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár var samþykkt 5 millj. kr. tímabundið framlag til að móta kröfur um námskeið í íslensku fyrir útlendinga sem sækja um búsetuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Dómsmálaráðuneytið hefur leitað til Kennaraháskólans í því sambandi.

Ég vil sömuleiðis minnast á, hæstv. forseti, að í janúar kynnti Fjölmenningarsetur á Vestfjörðum helstu niðurstöður könnunar sem gerð var meðal erlendra starfsmanna frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Könnunin var gerð á Vestfjörðum og Austurlandi. Niðurstöðurnar eru að mörgu leyti fróðlegar og kom m.a. fram, sem kannski kemur engum á óvart, að við þyrftum að efla íslenskukennslu fyrir þann hóp. Raunar kom fram að hópurinn kallaði mjög ákveðið eftir því. Stefnt er að því að gera sambærilega könnun og þegar hefur verið gerð á Austurlandi og Vestfjörðum um allt land.

Hæstv. forseti. Ljóst er að við getum gert mun betur varðandi íslenskukennslu fyrir útlendinga bæði hjá börnum og fullorðnum. Að störfum er samráðshópur með fulltrúum dómsmála-, menntamála- og félagsmálaráðuneytis um íslenskukennslu fyrir útlendinga. Í ljósi niðurstaðna könnunarinnar sem ég minntist á fyrr hafa átt sér stað viðræður milli áðurnefndra ráðuneyta um nauðsyn þess að gefa því starfi nánari gaum, efla samstarfið, gera það formlegra og víkka viðfangsefni starfshópsins. Það er vilji til að svo verði. Samhliða því má gera ráð fyrir að tryggja þurfi aukið fjármagn til frambúðar til íslenskukennslu fyrir útlendinga.