131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Rekjanleiki kjöts.

402. mál
[15:58]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um rekjanleika kjöts. Hér er um að ræða eina af þeim fyrirspurnum sem erfitt er að ákveða hvert eigi að beina. Á hún að beinast til hæstv. umhverfisráðherra eða hæstv. landbúnaðarráðherra, þar sem þetta snertir svið sem getur hugsanlega tengst verkefnum beggja ráðherranna?

Ég spyr hæstv. ráðherra um hvort hún muni beita sér fyrir því að settar verði reglur um rekjanleika og merkingar um upprunaland á innfluttu kjöti. Ef svo er, hvenær má þá vænta reglugerðar um rekjanleika og merkingar á innfluttu kjöti? Eins væri gott að fá frekari upplýsingar um hvort ráðherra hafi einhverjar hugmyndir um upprunamerkingar á innlendu kjöti, hvort vænta megi þess að slíkar merkingar skili sér á neytendaumbúðir.

Þannig er mál með vexti að lög um matvælaeftirlit og hollustuhætti og dreifingu matvæla eru á ábyrgð hæstv. umhverfisráðherra og eins reglugerð um kjöt og kjötvörur. En hæstv. landbúnaðarráðherra hefur á sinni könnu lög um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og eins úthlutun á tollkvótum á kjöti.

Skipting málaflokksins er með þessum hætti sem mér finnst skipta máli hvað varðar kröfur neytenda um að fá að vita hvort það kjöt sem er hér í kjötborðum og er ekki innpakkað sé af innlendum dýrum eða innflutt, og hvort það sem er í pakkningum og í kjötborðum sé þannig merkt að sjá megi hvaðan kjötið er komið, frá hvaða landi það er.

Þetta finnst mér vera neytendavernd og eins það sem snýr að innlendu framleiðslunni. Frá bóndanum og í sláturhúsinu er alveg ljóst hvaðan kjötið kemur, þ.e. að þegar kemur að vinnslunni er kjötið rækilega merkt bæði bónda og eins flokkun á kjöti en þegar kemur að því að saga það niður og að það skili sér endanlega í pakkningar hverfa þessar merkingar (Forseti hringir.) og ekki er lengur hægt að rekja kjötið til bóndans.