131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum.

403. mál
[16:05]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra varðandi transfitusýrur. Ekki vita allir hvað þetta er og hafa kannski ekki miklar áhyggjur af því sem eðlilegt er. Engu að síður hefur töluverð umræða verið í gangi í Evrópu, sérstaklega á Norðurlöndunum og Danmörku þá kannski helst, undanfarin ár varðandi óhollustu þessarar tegundar fitu sem við köllum hér á landi herta fitu og hefur komið í ljós í mörgum rannsóknum að er mjög óholl. Miklar rannsóknir eru í gangi hvað varðar óhollustu þessarar fitu en það hefur komið í ljós að hún hefur áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma, hún hefur hugsanlega áhrif á tíðni sykursýki tvö og hugsanlega líka á þróun fósturs í móðurkviði.

Transfitusýrurnar koma fyrir með tvennum hætti í matvælum. Annars vegar eru það transfitusýrur sem myndast þegar fljótandi olía er hert í iðnaðarframleiðslu til þess að smjörlíki og slíkar vörur haldi betur formi, séu þéttari í sér. Helsti hvati til iðnaðarframleiddrar transfitusýru er að það er ódýrari framleiðsla og smjörlíkið geymist betur og þær vörur sem þessi fita er notuð í. Síðan myndast transfitusýrur í vömb jórturdýra fyrir tilstilli baktería sem finnast þar. Þær sýrur eru þó myndaðar á annan hátt og í mjög litlu magni.

Þessar sýrur eru í sætmeti og kexi og kökum, vínarbrauði, skyndibitafæðu og borðsmjörlíki. Þær eru í mjög mörgum matvælum sem eru á borðum okkar í dag og er mjög erfitt að forðast. Ef við skoðum íslensku pakkningarnar utan um viðbit og smjörlíki er sundurgreint hvernig fitan er samsett og þá stendur bara framleitt úr hertri olíu en ekki í hve miklu magni.

Danir eru búnir að koma böndum á þessa framleiðslu. Það má ekki vera meira en 2% af transfitusýru í vöru og ég tel mjög mikilvægt að við förum að þeirra dæmi og reynum að minnka magn transfitusýra í mat hér á landi.