131. löggjafarþing — 65. fundur,  2. feb. 2005.

Iðnaðarframleiddar transfitusýrur í matvælum.

403. mál
[16:08]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Nokkrir smjörlíkisframleiðendur hér á landi hafa minnkað magn af transfitusýrum í borðsmjörlíki en ekki er vitað um magn transfitusýra í iðnaðarsmjörlíki, þ.e. því smjörlíki sem t.d. bakarí og stóreldhús nota. Mælst hefur mjög hátt magn af transfitusýrum í örbylgjupoppkorni í Danmörku en ekki er vitað um ástand mála hér á markaði.

Danmörk er eina landið svo að vitað sé sem hefur sett reglur um innihald transfitusýra í matvælum. Í Bandaríkjunum verður skylt að hafa magn af transfitusýrum merkt í næringargildislýsingu frá og með árinu 2006. Hér á landi er fylgst með framgangi þessara mála hjá nágrannaþjóðum okkar en ekki hefur verið tekin ákvörðun um að setja reglur um transfitusýrur í matvælum.

Í vísindaáliti EFSA, Matvælaöryggisstofnunar Evrópu, kemur fram að neysla á mettaðri fitu er talin vera meira áhyggjuefni en neysla á transfitusýrum og samkvæmt landskönnun árið 2002 sem Manneldisráð framkvæmdi fá landsmenn að meðaltali um 16% orkunnar frá mettaðri fitu en ráðleggingar eru í þá veru að ekki ættu að koma meira en að hámarki 10% orkunnar frá mettaðri fitu.

Þess má geta að neysla landsmanna á transfitusýrum hefur minnkað frá 1996 þegar hún var um 5,4 grömm á dag en hún var árið 2002 að meðaltali 3,5 grömm á dag, mest hjá karlmönnum á aldrinum 20–39 ára, 4,2 grömm á dag. Þess má geta að þessar tölur eru nokkru hærri hér á landi en sambærilegar neyslutölur hjá öðrum Evrópuþjóðum.