131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[11:36]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil hefja ræðu mína á því að þakka bæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. fjármálaráðherra Geir Haarde fyrir þátt þeirra í því að þessi umræða er hér uppi í dag. Eftir lestur skýrslunnar er tvennt að mínu mati sem stendur ákaflega mikið upp úr.

Í fyrsta lagi er það athyglisvert að mínu mati og í raun ámælisvert fyrir ríkisstjórnina að ekki skuli liggja fyrir reikningslegar úttektir sömu tegundar og gerðar voru á Íslandi annars vegar árið 1986 og hins vegar 1993. Þeir einstaklingar sem stóðu að gerð skýrslunnar hafa engu að síður greinilega unnið verk sitt vel og lagt metnað í það. Það liggur í augum uppi að upplýsingar sem í raun eru grundvallaratriði fyrir trúverðugu heildarmati á umfangi skattsvika á Íslandi lágu ekki fyrir, skýrsluhöfundum til handa að sjálfsögðu. Það er í raun með ólíkindum að skýrsluhöfundar þurfi að þessu leyti að styðjast við erlendar rannsóknir og svo skýrslur um sama mál frá árunum 1986 og 1993 sem gerðar voru hér á landi en allir eiga að vita að viðskiptaumhverfið á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á umliðnum áratug.

Í fyrri skýrslum voru upplýsingar um annars vegar ráðstöfunaruppgjör og hins vegar framleiðsluuppgjör landsframleiðslu. Þessi tvö uppgjör voru borin saman. Var mismunur þeirra þá talinn líklegur undandráttur eða í raun umfang skattsvika á hverjum tíma fyrir sig. Skýrsluhöfundar leituðu til stofnana en fjármálaráðuneytið óskaði eftir því við skýrsluhöfunda að leitað yrði ráða hjá Hagstofu Íslands í stað Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands eins og skýrsluhöfundar vildu. Kom reyndar á daginn að Hagstofa Íslands gat ekki komið þessum upplýsingum til skýrsluhöfunda. Má því fullyrða að skýrslan sem hér er til umræðu sé fyrst og fremst skýrsla sem greini frá fjölmörgum tegundum skattsvika á Íslandi og góðum ráðum til að sporna við skattsvikum af ólíku tagi en hér er alls ekki um að ræða skýrslu sem varpar ljósi á umfang skattsvika á Íslandi. Til þessa vantar áðurnefndar upplýsingar til mats á umfangi skattsvika. Að því leyti má segja að skýrslan sé spádómur þegar kemur að sjálfu umfangi skattsvika á Íslandi.

Í annan stað stendur upp úr að ákveðin grundvallarbreyting hefur orðið á eðli skattsvika á Íslandi á undanförnum árum. Svört atvinnustarfsemi af litlum toga er talin hafa dregist töluvert saman á meðan vel skipulögð og vel ráðlögð bókhalds- og framtalssvik ásamt undanskotum í gegnum aðila skráða erlendis hafa vaxið til muna.

Þegar vikið er að skattsvikaliðum með erlendu ívafi kennir ýmissa grasa. Víst er að leiðir til undanskots eru fjölmargar og má í því ljósi benda sérstaklega á nýjan iðnað sem er ráðgjöf, sérstaklega í skattamálum, til stærri fyrirtækja landsins. Í Bandaríkjunum var spornað við þessari þróun með upplýsingaskyldu ráðgjafarfyrirtækja af þessu tagi. Í dag er þeim skylt að upplýsa skattyfirvöld um nöfn viðskiptavina sinna. Þessi breyting hefur aðstoðað þarlend skattyfirvöld stórum og í raun einfaldað starf skattyfirvalda í Bandaríkjunum til muna.

Upplýsingagjöf frá bönkum og fjármálafyrirtækjum til skattyfirvalda verður að tryggja með óyggjandi hætti. Ísland er í hópi einungis 10 ríkja innan OECD þar sem gætir alvarlegrar tregðu í upplýsingagjöf milli fjármálastofnana og skattyfirvalda. Hin ríkin 20 búa svo um hnútana að sjálfkrafa berast upplýsingar frá þessum fjármálastofnunum til skattyfirvalda um einstök viðskipti viðskiptamanna sinna. Efla verður ríkisskattstjóra með sérstaka áherslu gagnvart þeirri þróun sem um getur í skýrslunni.

Eins og áður var vikið að hefur sú grundvallarbreyting átt sér stað að svört atvinnustarfsemi af litlum toga hefur dregist saman á meðan vel skipulögð og vel ráðlögð bókhalds- og framtalssvik með erlendu ívafi hafa vaxið. Það er afar mikilvægt að um þverpólitíska samstöðu verði að ræða innan þings og utan svo að tryggt verði að sett verði lög sem komi í veg fyrir þá þróun sem einkennir skattsvikin í dag. Framkvæmdarvaldið og löggjafinn verða að grípa til viðeigandi aðgerða svo að skýrsluvinnu starfshópsins verði fylgt alla leið. Það dugar ekki eingöngu að ræða vandann, heldur er mikilvægt að láta verkin tala með vönduðum starfsháttum í lagagerð. Í þessu ljósi má nefna mikilvægar breytingar og þarfar sem vert er að ráðast í á næstu missirum. Má þar fyrst nefna mikilvægi þess að hlutverk Fjármálaeftirlitsins verði skoðað með það að markmiði að stofnunin heyri undir Alþingi en ekki ráðherra eins og er í dag.

Jafnframt er afar mikilvægt að störfum hringanefndar verði fylgt eftir með öflugum hætti en ljóst má vera að ekki mun duga að veita nokkrar aukamilljónir til Samkeppnisstofnunar í því stóra máli. Það verður að fara aðrar leiðir, t.d. með vandaðri lagasetningu sem útilokar hringamyndun í ólíkum iðnaði.

Eftir miklar breytingar á umliðnum árum í íslensku efnahagslífi er þarft að löggjafinn og síðast en ekki síst framkvæmdarvaldið fylgi þeim breytingum eftir með skjótum og ábyrgum hætti svo að tryggt verði að umgjörð og staða íslensks efnahagslífs einkennist af heiðarleika og umfram allt trúverðugleika. Það mun ekki vanta upp á metnað Frjálslynda flokksins í þeim efnum.

Við í Frjálslynda flokknum höfum áhyggjur af því nána sambandi sem ríkir á milli stjórnarliða og atvinnulífsins í landinu. Í þessu skyni er vert að minnast á þá grundvallarkröfu okkar í Frjálslynda flokknum að stjórnmálaflokkum verði skylt að opinbera bókhald sitt.