131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra, við erum alveg sammála um að það á ekki að líða mönnum að komast undan eðlilegum skattgreiðslum. En ef menn meina eitthvað með því þá hljóta þeir að fylgja fast eftir þeim tillögum sem fram koma í skýrslu skattsvikanefndar. Ég fagna því sannarlega sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að hann lokar ekki á neinar þær hugmyndir. Hann er opinn fyrir öllum þessum hugmyndum. Ég tel afar mikilvægt að efnahags- og viðskiptanefnd fái nú skýrsluna til umfjöllunar og móti sínar tillögur um það hvernig hún vill taka á þessu máli og komi með sínar tillögur aftur inn í þingið. Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra fái leiðsögn frá þinginu um hvað þingið vill gera í þessu efni. Það hefði verið fróðlegt að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji málin komin það langt á hans vegum eða hvort hann muni setja í gang þá skoðun á þessu máli að við munum eiga von á því að fá fram lagabreytingar á þessu þingi vegna þess að margar af þessum tillögum kalla á lagabreytingu.

Ég vil líka nefna eitt atriði sem við höfum ekki rætt í þessari umræðu. Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af frjálslegum reglum um yfirfæranlegt rekstrartap sem hefur vaxið úr hvorki meira né minna en 80 milljörðum í nærri 170 milljarða á árunum 2000–2003. Það má benda á að fyrirtæki hafa í verulegum mæli nýtt sér þetta sem er út af fyrir sig ekkert hægt að gagnrýna. En þær eru of frjálslegar þessar reglur. Til dæmis voru á árunum 1998–2001 2.200 fyrirtæki skattlaus þrátt fyrir 70 milljarða rekstrarhagnað vegna nýtingar á rekstrartapi. Þetta er eitt af því sem ég hefði mjög gjarnan viljað skoða. En ég treysti því, af því að hæstv. ráðherra vill auðvitað og eðlilega sporna gegn skattsvikum, að hann fari þá leiðir hinna reyndu manna í skatteftirlitinu sem hafa besta og gleggsta yfirsýn yfir hvar gloppurnar eru í skatteftirliti og skattframkvæmd, að hann fylgi þessum tillögum eftir og það af fullri hörku til þess að við náum einhverjum árangri því útilokað (Forseti hringir.) er að búa við það að hérna séu á reiki neðan jarðar í skattkerfinu 30–40 milljarðar (Forseti hringir.) án þess að Alþingi taki fast á því.