131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Umfang skattsvika á Íslandi.

442. mál
[12:21]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Hann er ákaflega samstarfsfús og hvetur hér til þverpólitískrar samstöðu, m.a. gegn skattsvikum, á þessum ágæta morgni. Ég fagna því. Hæstv. ráðherra kemur vel undan skammdeginu.

Varðandi þjónustutilskipunina þá vil ég meina að vissulega séu í henni miklu alvarlegri hættur hvað varðar stöðu vinnumarkaðarins, réttindi launafólks og annað í þeim dúr. En ég hef ástæðu til að ætla, og það er ekki bara ég sem hugsa á þeim nótum heldur veit ég að þetta er útbreidd skoðun meðal þeirra sem hafa verið að fylgjast með þeim málum, að líka sé ástæða til að fylgjast með því máli vegna mögulegra tekjuáhrifa skatttekna opinberra aðila og þeirrar hættu að þjónustutilskipunin verði til þess að grafa undan samneyslunni í þeim löndum sem hafa burðast við að halda uppi sæmilega myndugu velferðarkerfi.

Það væri nú gaman ef það væri fólgið í 15%-tillögum Verslunarráðsins að hækka fjármagnstekjuskattinn upp í 15% og væru það þá tíðindi ef það gerðist að Verslunarráðið legði til skattahækkun. Ég bíð nú með að sjá það eða heyra hvað þarna er nákvæmlega á ferðinni. Ætti það síðan að þýða að eiginlega allar aðrar prósentur færu niður á móti þá er ég nú ekki viss um að ég mundi gera þau kaup á eyrinni.

Auðvitað er rétt að ástæða er til að fá þær tillögur fram í dagsljósið og sjá hvað nákvæmlega er í þeim fólgið. En mér einhvern veginn býður í grun að þar sé áfram á ferðinni hugmyndafræðin um bara því lægra því betra, því lægri prósentur, því minni skattsvik, sem auðvitað fær falleinkunn í þessari skýrslu því meginniðurstaða hennar er sú að almenningur sem borgar miklu hærri prósentur er ekki aðalvandamálið í þessu heldur stóru umsvifamiklu aðilarnir sem hafa fengið mestar skattalækkanir. Þeir eru áfram aðaláhyggjuefnið í sambandi við skattsvik. Frjálshyggjukenningin um skattprósentur býður því skipbrot í þessari skýrslu. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) (Gripið fram í: Jú.)