131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Ársreikningar.

480. mál
[12:23]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga

Við samningu þessa frumvarps var þrennt haft í huga:

1. Að reglugerð Evrópuráðsins og þingsins nr. 1606/2002, frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, verði veitt lagagildi hér á landi.

2. Að taka upp ákvæði tilskipunar nr. 51/2003/ESB, en markmið hennar er að nútímavæða reikningsskil annarra félaga en þeirra sem taka upp alþjóðlega reikningsskilastaðla.

3. Að færa ársreikningalögin til nútímalegs horfs, á sama hátt og Danir gerðu við endurútgáfu ársreikningalaga sinna, samanber dönsk lög nr. 448/2001. Þegar frumvarp til laga um ársreikninga var samið á árunum 1993–1994 var framsetning þágildandi dönsku ársreikningalaganna höfð til hliðsjónar og þykir því efni til að beita þeirri fyrirmynd enn og aftur.

Vík ég þá í fyrsta lagi að reglugerð nr. 1606/2002. (Gripið fram í.)

Í frumvarpi þessu er verið að innleiða ákvæði reglugerðarinnar og jafnframt nánari ákvæði um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Við innleiðingu reglugerðarinnar hér á landi öðlast texti hennar lagagildi í heild sinni.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar EB nr. 1606/2002, eins og hún hefur verið aðlöguð, ber félögum sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamörkuðum innan EES að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, sem skammstafað er IAS/IFRS, við gerð samstæðureikninga sinna fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar. Með alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er í þessu sambandi átt við þá reikningsskilastaðla sem IASC — á ensku: International Accounting Standards Committee — hefur þróað og gefið út og þá reikningsskilastaðla sem síðar verða gefnir út af IASB — á ensku: International Accounting Standards Board — og framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt með formlegum hætti og birt samkvæmt ákvæðum reglugerðar EB nr. 1606/2002.

Að auki inniheldur reglugerð EB nr. 1606/2002 ákvæði sem hverju aðildarríki er heimilt að útfæra með ákveðnum hætti í löggjöf sinni. Samkvæmt a-lið 5. gr. reglugerðarinnar er hverju aðildarríki heimilt að leyfa eða krefjast þess að skylda skráðra félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum nái einnig til ársreikningsgerðar félaganna, en grunnskyldan samkvæmt reglugerðinni nær aðeins til samstæðureikninga. Jafnframt er aðildarríkjum heimilt samkvæmt b-lið 5. gr. reglugerðarinnar að leyfa eða krefjast þess að önnur félög, þ.e. félög sem ekki eru með verðbréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES, beiti stöðlunum við gerð samstæðureikninga og/eða ársreikninga. Í 9. gr. reglugerðar EB nr. 1606/2002 er síðan heimild fyrir aðildarríkin til að fresta gildistöku skyldu samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar, um að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga, gagnvart tilteknum félögum, fram til reikningsárs sem hefst í janúar 2007 eða síðar. Annars vegar er þar um að ræða félög sem eingöngu hafa skuldabréf skráð á skipulegum verðbréfamörkuðum innan EES og hins vegar félög sem eru með verðbréf skráð á verðbréfamörkuðum utan EES, og þau hafa í þeim tilgangi notað aðra alþjóðlega viðurkennda staðla sem grunn fyrir samstæðureikninga sína allt frá reikningsári sem hófst fyrir gildistöku reglugerðar EB nr. 1606/2002.

Heimildarákvæði 9. gr. umræddrar reglugerðar EB er í frumvarpi þessu sett fram með þeim hætti að þeim félögum sem ber að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga sinna samkvæmt 4. gr. umræddrar reglugerðar og eingöngu hafa skráð skuldabréf á skipulegum verðbréfamarkaði verður ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikninga sinna fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar.

Heimildarákvæði a-liðar 5. gr. reglugerðar EB nr. 1606/2002 er í frumvarpi þessu sett fram með þeim hætti að félögum sem hafa hlutabréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES verður gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna, hvort sem félögin gera samstæðureikninga eða ekki, en skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga hefst þó ekki fyrr en fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar. Félögum sem eingöngu hafa önnur verðbréf en hlutabréf skráð verður ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna fyrr en eftir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2007 eða síðar. Meginröksemdin að baki því að heimila félögum að bíða til 2007 með að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna er sú að tillit er tekið til þeirra félaga sem ekki gera samstæðureikninga. Fyrir slík félög kann skylda til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum strax fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar að vera íþyngjandi og hafa í för með sér aukinn kostnað. Með tilliti til þess að skammur tími er til stefnu og að um er að ræða lítinn hluta þeirra viðskipta sem eiga sér stað á verðbréfamarkaði hérlendis þykir rétt að veita félögum þessum aukið svigrúm til að aðlaga sig breyttu umhverfi reikningsskila sem beiting alþjóðlegra reikningsskilastaðla hefur í för með sér.

Með því að gera kröfu um að félög með skráð hlutabréf, sem eingöngu gera eigin ársreikning, beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við reikningsskil sín er þeim félögum gert að standa jafnfætis félögum sem gera samstæðureikninga, að því er varðar möguleika fjárfesta til að meta fjárhagslega afkomu félagsins, og gæti slíkt átt þátt í að gera viðkomandi félag að eftirsóknarverðari fjárfestingarkosti.

Lögð er áhersla á það sjónarmið fjárfesta að þeir megi treysta því að félög, sem lúta íslenskum lögum og hafa hlutabréf skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES, geri reikningsskil sín eftir sömu reglum. Óæskilegt teljist að fjárfestirinn þurfi að afla sérstakra upplýsinga um uppgjörsaðferðir eða hvort viðkomandi félag geri samstæðureikning eða ekki. Með því að gera kröfu um að sömu reikningsskilaaðferðum skuli beitt við gerð ársreiknings og samstæðureiknings er tryggt ákveðið samræmi í fjárhagslegum upplýsingum og aðstaða fjárfesta er bætt.

Ljóst er að ákvæði frumvarps þessa um skyldu til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum ganga lengra en ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1606/2002. Í því sambandi er rétt að fram komi að tvö ólík sjónarmið voru aðallega uppi hvað þetta varðar. Annars vegar var það sjónarmið að hagsmunir fjárfesta væru í fyrirrúmi, að þeir ættu kröfu á að öll reikningsskil skráðra félaga væru gerð samkvæmt sömu reglum. Hins vegar kom það sjónarmið fram að ekki væri ástæða til að gera ríkari kröfur í lögum en umrædd reglugerð EB nr. 1606/2002 sjálf gerði. Slíkt gæti leitt til kostnaðarauka fyrir þau félög sem um ræðir, auk þess sem skipulegur verðbréfamarkaður gæti sett sínar eigin reglur varðandi þá aðila sem fá verðbréf sín skráð. Niðurstaðan varð sú að sjónarmið um samræmi í reikningsskilum skráðra félaga og um vernd hagsmuna fjárfesta þótti vega þyngra.

Varðandi skyldu félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikninga sinna er þó ein mikilvæg undantekning. Félögum sem ekki gera samstæðureikning og hafa eingöngu önnur verðbréf en hlutabréf skráð verður ekki gert skylt að beita stöðlunum við gerð ársreikninga sinna. Megináhersla er lögð á þau félög sem hafa skráð hlutabréf enda viðskipti með hlutabréf almennust hér á landi. Ekki þykir rétt að gera sömu kröfur til félaga sem eingöngu hafa aðrar tegundir verðbréfa skráð hvað varðar skyldu til að beita alþjóðlegum reikningsskilagjörðum við gerð ársreikninga.

Þeim félögum sem ekki hafa verðbréfin sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði innan EES verður ekki gert skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir reikningsskil sín, hvorki við gerð samstæðureiknings né ársreiknings, heldur verður þeim heimilt að beita stöðlunum samkvæmt eigin ákvörðun að uppfylltum tilgreindum stærðarmörkum sem fram koma í frumvarpinu.

Í frumvarpinu er kveðið á um að annars vegar hafi Fjármálaeftirlitið og hins vegar ársreikningaskrá eftirlit með að félög beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðum. Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir skörun á milli Fjármálaeftirlits og ársreikningaskrár. Fjármálaeftirlitið skal hafa eftirlit með þeim félögum sem það hefur eftirlit með samkvæmt lögum nr. 87/1998 en ársreikningaskrá með öðrum skráðum sem óskráðum félögum. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. núgildandi laga nr. 144/1994, um ársreikninga, sbr. og 9. gr. reglugerðar nr. 319/2003, um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga, skal ársreikningaskrá gera úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum, samstæðureikningum og skýrslum stjórna í því skyni að sannreyna að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Samkvæmt frumvarpi þessu mun eftirlitshlutverk ársreikningaskrár breytast frá því sem verið hefur. Með þessu er lögð áhersla á að heildareftirlit með ársreikningum og samstæðureikningum sé í höndum tveggja aðila sem skulu hafa samstarf um verklag við eftirlitið gagnvart öllum félögum hér á landi sem falla undir gildissvið þessa kafla um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla auk þess sem ársreikningaskrá hefur eftirlit með almennum ákvæðum laga um ársreikninga.

Gert er ráð fyrir að endurmat fari fram á framkvæmd eftirlits með ársreikningum og samstæðureikningum félaga. Skipta má eftirlitsþættinum í flokka eftir áherslum. Í því sambandi þarf að huga sérstaklega að þeim félögum sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, þar þarf að gera ráð fyrir mun ítarlegri eftirlitsframkvæmd en gagnvart óskráðum félögum. Leggja þarf áherslu á að endanlegt fyrirkomulag eftirlitsþáttarins sé hagkvæmt í alla staði. Á þessu stigi er ekki gerð tillaga um viðurlagaheimildir í tengslum við eftirlitið en skv. 1. tölulið 1. mgr. 84. gr. laga um ársreikninga telst það til refsiverðra brota sem sætir fésektum ef gerð ársreiknings eða samstæðureiknings er andstæð lögunum þannig að reikningsskilin gefi ekki glögga mynd í samræmi við góða reikningsskilavenju.

Einnig er lagt til að eftirlitsskyldir aðilar skuli standa straum af kostnaði við eftirlitið.

Vík ég nú hv. þingmönnum til glöggvunar að tilskipun nr. 51/2003/EB. Með þessari tilskipun er Evrópusambandið að setja lokahnykkinn á varðandi endurskoðunarreglur um ársreikninga. Þar er verið að leggja til breytingar á 4. og 7. tilskipun ESB og uppfærðar reglur um ársreikninga að reglum alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna fyrir félög sem munu ekki fara eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.

Markmið tilskipunarinnar um nútímavæðingu er þríþætt:

1. Að afnema þau ákvæði tilskipana sem stangast á við innleidda alþjóðlega reikningsskilastaðla,

2. að tryggja að allir valkostir reikningsskila sem tiltækir eru samkvæmt settum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum séu til staðar fyrir félög sem ber að halda áfram að fara eftir lögum um ársreikninga í hverju aðildarríki og

3. að færa undirstöðuatriði formgerðar ársreikningslaga til nútímahorfs þannig að rammi reikningsskila veiti hvort tveggja samræmi við nútímaframkvæmd reikningsskila og nægjanlegan sveigjanleika til að leyfa frekari þróun þeirra.

Til að ná þessum tilgangi er aðildarríkjunum ætlað að breyta ákvæðum landslaga um ársreikninga sem eiga að gilda fyrir þau félög sem fara eftir þeim í stað alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna. Þessu er náð með því að taka upp kröfur alþjóðlegra reikningsskilastaðla án þess að fella niður gildandi valkosti sem eru fyrir í tilskipunum og landslögum. Hafa ber í huga að það er ekki verið að setja þessa tilskipun til að félög taki upp reikningsskil alþjóðlega reikningsskilaráðsins, það gerir reglugerðin, heldur er tilgangurinn að heimila öðrum félögum að nota einstaka innleidda reikningsskilastaðla.

Er því sá munur á þessari tilskipun og reglugerð 1606/2002 að á meðan reglugerðin felur í sér að tiltekin félög eru beinlínis skylduð til að haga reikningsskilum sínum í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla er tilskipuninni ætlað að tryggja að öðrum félögum sé heimilt að semja reikningsskil sín í samræmi við slíka staðla, kjósi þau það á annað borð, ásamt þeim reikningsskilareglum sem kveðið er á um í lögum um ársreikninga. Þannig geta þau notið þeirra gæða sem alþjóðlegu reikningsskilastaðlarnir veita án þess að taka á sig þá kvöð sem skyldan hefur í för með sér, að beita þeim á alla þætti reikningsskila.

Sem dæmi um aðlögun tilskipana að reikningsskilastöðlum má nefna breytingu á 31. gr. 4. tilskipunar sem er í samræmi við reikningsskilastaðal nr. 37, um áætlaðar skuldir, óvissar skuldbindingar og óvissar eignir. Samkvæmt staðlinum skal taka til greina allar skuldir sem myndast kunna á reikningsárinu eða í tengslum við fyrri reikningsár en þar að auki verður áfram í gildi fyrir þessi félög heimild til að taka einnig tillit til fyrirsjáanlegra skulda og allt tap sem myndast kann á reikningsárinu eða í tengslum við fyrri reikningsár, sbr. 20. gr. gildandi ársreikningalaga. Enn fremur verður leyfilegt að endurmeta alla fastafjármuni, þar með talið óefnislega fastafjármuni, í samræmi við reikningsskilastaðal nr. 38, um óáþreifanlegar eignir. Þá verður heimilt að meta fjárfestingareignir til gangvirðis í samræmi við reikningsskilastaðal nr. 40, um fjárfestingareignir, og nr. 41, um landbúnað. Einnig verður heimilt að breyta framsetningu rekstrarreiknings og efnahagsreiknings í samræmi við alþjóðlega þróun sem fram kemur í reikningsskilastöðlum alþjóðareikningsskilaráðsins. Nauðsynlegar breytingar á framsetningu rekstrarreiknings og efnahagsreiknings verða gerðar með reglugerð samkvæmt heimild í lögunum.

Tilskipun nr. 51/2003/ESB mælir fyrir um strangari kröfur til þess að skýrsla stjórnar félags eða samstæðu sé í samræmi við bestu viðteknu starfsvenjur. Til að skýrslan gefi glöggt yfirlit yfir þróun í rekstri og stöðu félags eða samstæðu í samræmi við umfang reksturs er gert ráð fyrir að upplýsingar takmarkist ekki aðeins við fjárhagslega þætti heldur nái þær einnig til greiningar á umhverfis- og félagslegum þáttum sem nauðsynlegir eru til að skilja þróun, árangur og stöðu félags. Þá er aukið samræmi í gerð og framsetningu á endurskoðunarskýrslum með breytingum á kröfum sem gerðar eru til forms og efnis þeirra. Er það gert til að gera þessa mikilvægu þætti í reikningsskilum aðgengilegri og auðvelda jafnframt samanburð við önnur félög. Lagt er til í frumvarpinu að hinar auknu kröfur nái aðeins til þeirra félaga sem eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði og stærri félaga.

Tilgangur nútímavæðingar tilskipunarinnar er þess vegna að auðvelda öðrum félögum sem falla undir lög um ársreikninga notkun á settum alþjóðlegum reikningsskilastöðlum því lög um ársreikninga verða áfram grundvöllur reikningsskila þessara félaga, svo og grundvöllur reikningsskila á þeim þáttum sem settar alþjóðlegar reikningsskilareglur fást ekki við, svo sem um skýrslu stjórnar og endurskoðun og birtingu ársreikninga.

Auk framangreindra breytinga í samræmi við tilskipunina eru lagðar til töluverðar breytingar á uppsetningu laganna og jafnframt eru mörg ákvæði þeirra gerð ítarlegri. Hyggst ég ekki rekja þau atriði nánar í þessari framsöguræðu.

Virðulegi forseti. Vil ég að endingu leggja til að að lokinni þessari umræðu, sem áreiðanlega verður löng og ítarleg, verði frumvarpinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr.