131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[12:46]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skattskyldu orkufyrirtækja.

Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar nýrra raforkulaga, nr. 65/2003, sem fela í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Frumvarpið er samið af starfshópi sem skipaður var í lok ársins 2000. Honum var falið að fjalla um skattalegt umhverfi raforkufyrirtækja með það fyrir augum að tryggja jafnræði í skattalöggjöf á þessu sviði í takt við almenn samkeppnissjónarmið. Það var niðurstaða starfshópsins að rökréttast væri að skoða starfsemi orkufyrirtækja heildstætt en ekki einungis raforkustarfsemina, enda ýmsum vandkvæðum bundið í skattalegu tilliti, vegna þess hversu blandaður rekstur orkufyrirtækjanna er, að skilja á milli kostnaðar vegna sölu á raforku annars vegar og heitu vatni hins vegar. Jafnframt taldi starfshópurinn nauðsynlegt að orkugeirinn sem heild byggi við sambærileg skattaleg skilyrði, ekki síst út frá almennum samkeppnissjónarmiðum.

Rétt er að vekja athygli á því að frá framlagningu þessa frumvarps hefur eignarskattur verið aflagður og munu orkufyrirtæki því verða eignarskattsfrjáls hér eftir sem hingað til.

Með frumvarpi eru undanþágur orkufyrirtækja frá tekjuskatti og eignarskatti felldar niður. Enda þótt fyrir því kunni að hafa verið ákveðin rök á sínum tíma að undanþiggja orkufyrirtæki tekjuskatti og eignarskatti eru skilin milli þessara fyrirtækja og annarra fyrirtækja, sem eru að fullu skattskyld, ekki skýr. Orkufyrirtæki greiða t.d. tryggingagjald og virðisaukaskatt og ýmis önnur opinber gjöld. Auk þess þarf að hafa í huga að auk opinberra orkufyrirtækja standa einstaklingar að félögum um byggingu og rekstur orkuveitna sem eru skattskyld með venjulegum hætti.

Í frumvarpi þessu er gerð tillaga um að skattskyldan taki fyrst til rekstrarársins 2006 með álagningu árið 2007. Þannig gefst fyrirtækjunum svigrúm til að aðlaga fjárhæðir að skattalegum reglum við uppgjör tekjuskattsstofns og eignarskattsstofns.

Þar sem frumvarp þetta felur í sér skattlagningu á fyrirtæki sem ekki hafa áður sætt álagningu tekju- og eignarskatts er nauðsynlegt að setja ákvæði um endurmat, fyrningarstofn og stofn til söluhagnaðar vegna þeirra fjárfestinga sem þessir aðilar hafa lagt í fyrir gildistöku laga þessara til að gera skattlagningu þeirra jafnsetta skattlagningu annarra skattaðila. Vegna þessara sérstöku aðstæðna þykir rétt að leggja fram sérstakt frumvarp um skattlagningu orkufyrirtækja. Gert er ráð fyrir að hin sérstöku lög verði afnumin er fram líða stundir og ákvæði tekjuskattslaganna gildi þá ein um skattlagningu orkufyrirtækja.

Fjárhagslegt mat á áhrifum þessara tillagna á arðsemi orkugeirans er miklum vandkvæðum bundið. Við upphaf skattskyldu þarf að fara fram ákveðið endurmat og erfitt er að sjá fyrir afleiðingar þess varðandi skattskilin. Skuldsett orkufyrirtæki sem standa í miklum fjárfestingum á næstu árum með tilheyrandi tilkostnaði samhliða hægfara tekjumyndun greiða væntanlega ekki tekjuskatt á næstu árum heldur mynda yfirfæranlegt tap, en orkufyrirtæki sem safnað hafa upp hagnaði án mikilla fjárfestinga að undanförnu munu væntanlega greiða bæði tekjuskatt og eignarskatt.

Erfitt er að meta áhrif þessara breytinga á orkuverð og arðsemi orkufyrirtækja. Þannig liggja ekki fyrir samræmd gögn um reikningsskil fyrirtækjanna og þaðan af síður skattalegt uppgjör. Sem fyrr segir er í frumvarpinu gert ráð fyrir að fram fari skattalegt endurmat á fyrnanlegum og ófyrnanlegum eignum sem mun án efa hafa veruleg áhrif á skattalega niðurstöðu fyrirtækjanna. Áhrifin verða hins vegar ekki ljós fyrr en við fyrstu álagningu.

Miklar sveiflur hafa verið í afkomu orkufyrirtækjanna á síðustu árum. Þannig voru fimm af sex stærstu orkufyrirtækjunum rekin með tapi á rekstrarárinu 2001 og á árinu 2000 voru þrjú af fyrirtækjunum sex rekin með tapi. Hins vegar voru öll fyrirtækin nema eitt rekin með hagnaði á árinu 1999. Miðað við tölur ársins 2001 virðist eiginfjárstaða stærstu orkufyrirtækjanna mjög traust, eða sem nemur nálægt 100 milljörðum kr. samkvæmt uppgjöri í ársreikningum.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og efnahags- og viðskiptanefndar.