131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er auðvitað deginum ljósara að hér er á ferðinni skilgetið afkvæmi þeirrar markaðsvæðingar raforkugeirans sem Alþingi hefur verið með í höndunum, og er reyndar enn, undanfarin missirin. Eins og hér hefur þegar komið fram hefur þar verið um að ræða alveg sérstakt gæluverkefni Framsóknarflokksins. Hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur verið með óvenjulegum gleðibrag þegar hún hefur verið að mæla fyrir þessari markaðsvæðingu. Skemmst er að minnast umræðna um þá hluti í þinginu fyrir jól og fullyrðinga hæstv. ráðherra um að allt yrði þetta svo yndislegt og gott og ekki nokkur ástæða til þess að raforkuverð í landinu hækkaði nema þá ef vera skyldi fyrir kvikindisskap og græðgi orkufyrirtækjanna.

Annað hefur komið á daginn og er satt best að segja kostulegt hvernig menn láta, mér leyfist að segja vonandi, frú forseti, hafa sig að fíflum eins og gert var í tengslum við afgreiðslu þessa raforkulagafrumvarps hér ítrekað með breytingum á Alþingi undanfarin missiri, því það var borðleggjandi að útkoman úr því gat ekki orðið önnur að lokum en raunhækkun raforkuverðs að meðaltali í landinu.

Þetta er auðvitað afleiðing af því, og þetta frumvarp um að taka orkufyrirtækin inn í skattalög eins og hvern annan atvinnurekstur í landinu, í hnotskurn að menn hafa endurskilgreint þessa starfsemi. Það sem áður var almannaþjónusta, það sem áður var hugsað, byggt upp og starfrækt sem almannaþjónusta er núna bisness. Þess vegna er dálítið gaman að orðalaginu hérna í greinargerð frumvarpsins og það er spurning hvaða snillingar hafa samið þetta, hvort það er ráðherrann sjálfur eða einhverjir aðrir.

Hér segir t.d., með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er ætlunin að fella niður undanþágur orkufyrirtækja frá tekjuskatti og eignarskatti.“ — Svo kemur gullkornið: „Enda þótt fyrir því kunni að hafa verið ákveðin rök á sínum tíma að undanþiggja orkufyrirtæki tekjuskatti og eignarskatti eru skilin milli þessara fyrirtækja og annarra fyrirtækja, sem eru að fullu skattskyld, ekki skýr.“

Þetta er það sem ráðuneytið hefur um þetta að segja: Enda þótt fyrir því kunni að hafa verið ákveðin rök o.s.frv.

Hver skyldu þessi rök hafa verið? Jú, þau eru sprottin upp úr því beint að menn litu á þessa starfsemi sem almannaþjónustu. Þetta var ekki atvinnurekstur sem hafði það að markmiði fyrst og fremst að skapa eigandanum peninga, gróða. Menn litu svo á að arðurinn væri hinn afleiddi, þ.e. sem væri fólginn í því að skapa almenningi og atvinnulífi þessa þjónustu, veita hana á góðum kjörum og menn mundu njóta arðsins í gegnum betri lífskjör í landinu, í gegnum bjartari heimili á kvöldin og í gegnum þróttmikið atvinnulíf sem gæti sprottið upp úr því að hafa aðgang að ódýrri orku.

Nú er þessu öllu saman ýtt út af borðinu. Þetta skal vera bisness eins og allt annað og eigandinn skal veskú hafa arð af sínu fé og síðan skulu þessir aðilar fara að greiða skatta. Það má segja að þarna sé þá að bætast við kannski fjórði sýnilegi þátturinn sem mun á komandi árum ýta undir hærra orkuverð í landinu til viðbótar þeim þremur sem augljóslega fylgdu t.d. raforkulagabreytingunni og ég skal fara hérna aðeins betur yfir á eftir — sérstaklega fyrir Framsóknarflokkinn því að hann hefur alls ekki náð þessu enn þá, aumingja Framsóknarflokkurinn, að þetta hljóti að hækka rafmagnsverðið í landinu.

Þetta kemur auðvitað til af því, þetta brölt hér, að það var enginn vilji til staðar til að láta á það reyna hvort Ísland gæti fengið undanþágu frá orkutilskipun Evrópusambandsins. Ég segi það og ég segi það enn héðan úr þessum ræðustóli: Það var enginn vilji til staðar. Það var ekki látið á það reyna af neinum myndugleik. Það hefur í raun margverið viðurkennt opinberlega, t.d. með því að vísa í úttekt Orkustofnunar, þar hafi komið fram að það væru engin vandkvæði því samfara að markaðsvæða raforkugeirann á Íslandi, þar með væri engin ástæða til þess.

Stundum þegar sótt hefur verið að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur að vísu verið látið í veðri vaka að þetta hafi eitthvað verið kannað úti í Brussel en það hefur reynst erfitt að henda reiður á því í hverju slík könnun var fólgin. Mergurinn málsins er auðvitað sá, enda sannast það í gleði og hamingju hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og ríkisstjórnarinnar með þetta framtak, að það var enginn vilji til staðar í þeim efnum. Menn vildu markaðs- og einkavæða orkugeirann í landinu, auðvitað, það er í samræmi við hugmyndafræðina, nýfrjálshyggjuna sem hér ræður ríkjum.

Nú er það að vísu svo kostulegt að þessi geiri, sem menn hafa verið að markaðsvæða og á nú að fara að leggja á skatta, er í opinberri eigu. Eigandinn er reyndar hið sama ríki að verulegu leyti sem ætlar að fara að skattleggja sjálft sig þar með. Einhverjir kynnu þar af leiðandi að hlæja og segja: Nú já, þetta er bara úr einum vasanum í annan. Það er svona eins og þegar fara átti að selja almenningi bankana, þegar uppi var sú tískan að það ætti að selja bankana og það væri um að gera að hafa þá í dreifðri eignaraðild, almenningur ætti að kaupa bankana. Þá teiknaði teiknarinn Sigmund karl og kerlingu sem hlógu að þessari vitleysu og sögðu: Á nú að fara að selja okkur okkar eigin banka? Það var von að karl og kerling spyrðu?

Hér á þetta svo sem að vissu leyti við að ríkið og stærsta sveitarfélag landsins eru í raun og veru undir og yfir og allt um kring, og það er skaði að fyrrverandi borgarstjóri, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, er farin úr salnum því að ég ætlaði aðeins að koma inn á málflutning hennar á eftir. (Gripið fram í.) Það er vel.

Vandinn er bara því miður sá að þetta er ekki úr einum vasanum í annan. Það verður ekki eigandinn sem borgar sjálfum sér. Það verða notendurnir. Það verða notendur þessarar þjónustu og því miður ekki allir, bara sumir. Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að sumir notendurnir njóta forréttinda. Þeir eru algerlega tryggðir fyrir þessum breytingum. Af hverju er það? Það er af því að þeir eru með langtímasamninga um kaup á orkunni á föstum útsöluverðum til áratuga. Þess vegna eru stórkostlegar gildrur fólgnar í þessum málum sem menn eru rétt að byrja að sjá framan í núna. Það er bara einn hópur sem getur tekið á sig þessar hækkanir, staðið undir arðgreiðslunum og sköttunum, það eru almennu notendurnir. Það eru þeir sem hægt er að breyta á kjörunum strax á morgun. En stóriðjan, sem kaupir í dag um 70% af rafmagninu og mun innan skamms verða orðinn kaupandi að 85–90%, ef svo heldur fram sem horfir, er með allt sitt á þurru. Það er ekki hægt að hrófla við kjörum hennar. Hún er þannig tryggð að hún borgar fyrir rafmagnið útsöluprísana sem stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur skaffað henni á dollara per tonn miðað við heimsmarkaðsverð á áli. Við vitum nú hversu hamingjusamur dollarinn er í dag og hvernig það gengur. Og það væri gaman að horfa framan í afkomu Landsvirkjunar í dag eða hitt þó heldur ef ekki hefðu komið til óvæntar hækkanir á álverði. Það væri hamingjan á þeim bænum með dollarann í 61 krónu, talsverðan tilkostnað í innlendri mynt og lánin að miklu leyti í evrum og öðrum myntum, ef það væri ekki að bjarga mönnum fyrir horn núna að álverðið hefur stórhækkað.

Hver er þá til staðar til að borga arðinn, til að borga markaðsvæðingarkostnaðinn, til að borga eftirlitskostnaðinn og til að borga skattana? Almennu notendurnir í kerfinu. Það er aldeilis ótrúlegt hversu sofandi menn hafa verið í þessum efnum. Hvar voru Neytendasamtökin, verkalýðshreyfingin og aðrir slíkir aðilar, að vísu með heiðarlegum undanteknum, þegar þessi mál bar á góma? Og hvar voru hugsandi menn?

Hvar var Samfylkingin? Hún er úti að aka í þessum málum, búin að vera fullkomlega úti að aka í þessum málum, að reyna ekki að reisa því einhverjar skorður að menn setji upp svikamyllu af þessu tagi, stórhættulega. Það er eins og menn hafi bara enga þekkingu á því hvernig þessi orkugeiri okkar er samsettur og hver býr þar við hvaða hlut. Og að flokkar sem þykjast ætla í eitthvert erindi út á land í næstu kosningum og fá þar atkvæði skuli standa svona að málum er með miklum endemum. Það má kallast mikill aumingjaskapur af okkur í stjórnarandstöðunni ef við náum ekki að rassskella og hýða Framsókn og íhaldið þannig að þeir fái ekki eitt einasta atkvæði ofan við Elliðaár. Í raun og veru eiga þeir það ekki skilið því að þetta bitnar alveg sérstaklega harkalega og þungt á almennu notendunum og þeim t.d. sem kynda húsnæði sitt með rafmagni.

Auðvitað er þetta stórkostlegt áhyggjuefni fyrir alla aðila. Reykjavíkurborg hefur haft áhuga á því að losa eignarhlut sinn út úr Landsvirkjun og leyfist mér, enda íbúi í öðru sveitarfélagi, að hafa á því örlitlar skoðanir. Það er dæmi út af fyrir sig til að fara yfir hvernig það allt saman er, svona sögulega séð, og hver á hvað og hver hefur fengið hvað fyrir hvað, Marshall gamli og allt það. En Reykjavíkurborg hefði þá átt að hugsa sinn gang áður en hún t.d. að hluta til a.m.k. studdi stóriðjufjárfestingarnar sem nú er verið að ráðast út í.

Halda menn að það auðveldi Reykjavíkurborg að losa eignarhlut sinn út úr Landsvirkjun að hún er núna gengin inn í þetta kerfi allt saman hreint og með 100 milljarðana á bakinu vegna Kárahnjúka? Nei, ætli það nú. Talandi um að lífeyrissjóðirnir eigi að fara inn í orkufyrirtækin, það þarf ekkert að ræða um það á næstu árum. Orkufyrirtækin, þ.e. sérstaklega Landsvirkjun, eru ekki söluhæf vara næstu 10, 15, 20 árin. Það er verið að fara með eigið fé Landsvirkjunar niður undir ekki neitt vegna þessara glórulausu stóriðjufjárfestinga og það verður alltaf erfiðara og erfiðara að rétta á klyfjunum með því að færa pinkla yfir á almenna notendur. Það var hægt að bjarga Landsvirkjun hérna vegna Ísals á sjöunda og áttunda áratugnum með því að hækka rafmagnið á almenningi. Það var af því að þá var salan til stóriðjunnar tiltölulega lítill hluti og það sem almenningur keypti og borgaði fyrir yfirgnæfandi.

Nú hafa þessi hlutföll algerlega snúist við og þá er náttúrlega enginn annar á bak við þetta allt saman en skattgreiðendurnir í landinu þegar til kastanna kemur. Og það verða þeir, það verða almennu notendurnir og/eða skattgreiðendurnir sem borga kostnaðinn af markaðsvæðingunni, það sem Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur kallað öfug samlegðaráhrif, að taka fyrirtæki í einum samþættum rekstri, eins og t.d. Orkubú Vestfjarða, og skipta því í þrennt, í framleiðslu, flutning og smásölu. Það heita öfug samlegðaráhrif að fara í þá átt.

Það verða þessir sömu aðilar sem borga eftirlitskostnaðinn því markaðsvæðingunni fylgja alls staðar miklir tilburðir til að reyna að hafa eftirlit með því að aðilar í náttúrulegri einokunaraðstöðu misfari ekki með þá stöðu og skammti sér óhóflegan gróða. Þá fara menn að reyna að setja tekjuramma, þak og gólf og guð má vita hvað, og ég spái því að áður en við verður litið verði eftirlitsdeildin á Orkustofnun orðin ein af þeim bústnari norðan Alpafjalla. Það verður að sjálfsögðu þessi sami hópur sem borgar arðinn sem eigendum verður ekki bara rétt heldur skylt að taka sér af eigin fé bundnu í þessum fyrirtækjum.

Svo koma skattarnir í fjórða lagi þegar og ef þar að kemur. Ég er að vísu algerlega sammála höfundum þessarar greinargerðar með frumvarpinu þegar að því kemur að það er sýnd veiði en ekki gefin á næstu árum, eins og menn hafa staðið hér að málum, að orkufyrirtækin verði í þannig afkomu að þau komi til með að borga mikla skatta. Ætli það sé nú ekki líklegra að fyrstu 10, 20 árin eftir að þetta kerfi heldur innreið sína safni Landsvirkjun t.d. upp myndarlegu tapi sem hún eigi svo til frádráttar skattgreiðslum ef einhvern tíma kæmi til þeirra svona á þriðja áratug aldarinnar eða eitthvað svoleiðis? Enda segir hér reyndar að það sé ákaflega erfitt, ja, reyndar segir „miklum vandkvæðum bundið“ að meta fjárhagsleg áhrif þessara tillagna og það leiðir bæði af því endurmati á eignum og öðru slíku sem þarf að fara fram við upphaf skattskyldunnar, og svo segir:

„Skuldsett orkufyrirtæki sem standa í miklum fjárfestingum á næstu árum með tilheyrandi tilkostnaði samhliða hægfara tekjumyndun“ — samhliða hægfara tekjumyndun, þetta eru snillingar sem þarna hafa orðað á auðvitað miklu kurteisari hátt það sem ég var að segja áðan — „greiða væntanlega ekki tekjuskatt á næstu árum heldur mynda yfirfæranlegt tap, [...]“

Jahá, þannig er það, frú forseti. Auðvitað er það kapítuli út af fyrir sig að fá stjórnarfrumvarp af þessu tagi þar sem það er einfaldlega viðurkennt að menn viti ekki hvað þeir eru að leggja til, það sé algerlega skot út í bláinn hvaða fjárhagslegu afleiðingar þetta hafi í sjálfu sér, bæði fyrir fyrirtækin sem í hlut eiga og fyrir ríkissjóð sem þiggjanda teknanna. Það er bara af því bara að það verður að gera þetta samræmisins vegna og það liggur við að þetta sé kynnt sem næstum því að segja fagurfræðilegt atriði og svo verði bara að sjá til hver áhrifin verða af þessu.

Nei, auðvitað væri ástæða til að taka þessi orkumál, öllsömul eins og þau leggja sig, og allt þetta umhverfi virkilega til rækilegrar skoðunar. Í raun og veru hefur ekki verið nein sérstaklega meðvituð eða upplýst umræða eða stefna sem hefur legið því til grundvallar hvað hér hefur gerst. Menn hafa að vísu augljóslega tekið tilefninu eða tækifærinu fagnandi, að markaðsvæða og halda í áttina til einkavæðingar, að færa þetta svið úr almannaþjónustuskilgreiningu yfir í bisness, en að öðru leyti veit í raun og veru enginn neitt hvað verður. Það er stórfróðlegt að hlýða á mál forsvarsmanna orkufyrirtækjanna sem eiga nú að fara að standa í þessari samkeppni þegar þeir lýsa því yfir að þeir hafi enga trú á því, menn á besta aldri, að þeir muni upplifa að það komist á eiginleg samkeppni í orkumálum á Íslandi. Það er bara algerlega út í hafsauga. Af hverju er það? Það er af því að þetta eru þrjú fyrirtæki sem hafa einhverja umtalsverða stærð og burði í þessum efnum. Það er af því að þetta er allt í opinberri eigu. Ætla þrjú fyrirtæki í eigu opinberra aðila, ríkis og nokkurra sveitarfélaga, að fara að keppa við sjálf sig? Greiða arð til sjálfra sín, borga sjálfum sér skatta? Þetta er allt ein hringavitleysa.

Þegar menn hafa það nú fyrir sér hvernig þessar æfingar allar saman hafa gengið, bæði austan hafs og vestan, á margfalt stærri mörkuðum milli landa með hundruðum keppenda er auðvitað þvílíkur roknabrandari að mönnum skuli detta í hug uppi á Íslandi að þetta hafi eitthvað upp á sig að það hálfa væri nóg. Þetta er sýndarmennska. Þetta verður málamyndasamkeppni. Þetta verður fákeppnisharðsamansoðið fákeppnisumhverfi þar sem þrír menn þurfa að hittast í Öskjuhlíðinni eða taka upp tólið til þess að ganga algerlega frá því hvernig þessir hlutir verði, þ.e. ef þeir ná saman sem sagan sýnir okkur að eru verulegar líkur á.

Það er alveg sama hvar maður kemur að málinu — því miður, það er það alvarlega — líklegasta fórnarlambið og þolandi þessara breytinga allra saman er hinn almenni notandi. Að því marki sem einhver samkeppni kemst á sem verður raunveruleg verður hún um sölu til stærri almennu notendanna. Stóriðjan er tekin frá, hún er með sitt á þurru eins og ég fór yfir. Það getur vel verið að á einhverjum tímum myndist, kannski í byrjun, það andrúmsloft að það verði einhver samkeppni um sölu til þeirra sem við getum kallað innlenda stórnotendur, til stærri iðnfyrirtækjanna í landinu og þeirra sem virkilega svarar kostnaði að ná viðskiptum við. En það kemur aldrei, við okkar aðstæður, til með að eiga við um hinn almenna notanda, hvort sem hann í sjálfu sér býr úti á landi eða í Reykjavík eða á Suðurnesjum. Þolendurnir verða þeir og það er þegar farið að gerast, eins og við sjáum í því að beinar afleiðingar af markaðsvæðingaraðgerðunum núna um áramótin var hækkun á verði til hinna almennu notenda, yfirfærsla ef eitthvað er frá stærri innlendum notendum yfir á almenning og smáfyrirtæki. Er það þá virkilega sú átt sem menn vilja halda í í þessum efnum? Það er von að spurt sé.

Ég verð að segja, herra forseti, að það er ærin ástæða til að taka þessi mál öll til rækilegrar skoðunar. Það má segja að menn séu komnir með þau í hendurnar eina ferðina enn, t.d. í iðnaðarnefnd. Nú er ætlunin að fara þar yfir þessi ósköp sem urðu um áramótin. Iðnaðarnefnd ætlar sér að fara yfir þau og fá svör frá iðnaðarráðuneytinu og Orkustofnun um það. Hvernig í ósköpunum stóð á því að við vorum höfð svona að fíflum fyrir áramót? Það var fullyrt við okkur að þetta mundi engar slíkar afleiðingar hafa í för með sér sem svo skella á mönnum hér með allt upp í 30–40% hækkun á raforku til húshitunar á köldum svæðum. Við förum yfir það. Það er kannski ástæða til að aðrar nefndir fari í sameiningu líka yfir málið í því samhengi hvað varðar það að fara að gera orkufyrirtækin, bæði rafmagn og heitt vatn, skattskyld. Menn munu sjálfsagt færa fram þau rök að samhengisins og samræmisins vegna sé það óumflýjanlegt, ekki verði aftur snúið og allt þetta. Það er hins vegar ekkert sjálfgefið í þeim efnum og það getur skipt máli hvernig þeir hlutir verða útfærðir í öllu falli og frá þeim gengið þannig að hér er ekki ástæða til að hrapa að neinu.