131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[14:45]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er gott að allir séu á einu máli í hv. iðnaðarnefnd að kalla þessa aðila fyrir og vinna frekar að málinu. Ég verð að viðurkenna líkt og margir hafa gert að hinar miklu hækkanir á raforku komu mér verulega á óvart og koma landsbyggðinni illa. Ég ítreka að verið er að vinna í málinu og það er fullur vilji hjá hæstv. iðnaðarráðherra að bregðast við því og hefur hún þegar boðað ákveðnar aðgerðir.

Varðandi Stöðvarfjörð, sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur fléttast inn í umræðuna, þá hef ég engar áhyggjur af því hvernig fólk mun kjósa þar hér eftir sem hingað til. Það er einfaldlega þannig eins og þróunin er á landsbyggðinni, að sem betur fer bíða aðrir atvinnumöguleikar fólksins þar. Þar er erfitt ástand og Stöðvarfjörður er eitt af jaðarsvæðum á Miðausturlandi en það er stjórnarflokkunum að þakka að fólk á Austurlandi hefur þó alla vega einhver atvinnutækifæri í framtíðinni fyrir utan sjávarútveginn.