131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[14:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Hv. þm. Dagný Jónsdóttir segir að allir í hv. iðnaðarnefnd séu sammála um að gefnar hafi verið villandi upplýsingar. En sú einkennilega staða stendur eftir að hæstv. iðnaðarráðherra segir að hækkunin hafi verið fyrirsjáanleg, sem gefur til kynna og ég tel vert að rannsaka hvort hv. iðnaðarnefnd hafi fengið villandi upplýsingar frá ráðuneytinu.

Þó svo að Frjálslyndi flokkurinn eigi ekki sem stendur fulltrúa í Norðausturkjördæmi get ég upplýst hv. þingmann um það að fulltrúar flokksins eru einmitt á leiðinni austur og ætla að ræða við fólkið þar um það ástand sem Framsóknarflokkurinn hefur komið á, að meina fólki að njóta þess að nýta fiskimið sín. Það er eitt af því sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir ætti að hafa áhyggjur af, að flokkurinn skuli ganga svona fram og jafnvel koma í veg fyrir að ýmsar samþykktir flokksins er varða útræðisrétt strandjarða nái fram að ganga og vera að stefna bændum landsins og landeigendum í dómssal til þess að ná fram rétti sínum. Það er með ólíkindum og ég tel að framsóknarmenn eigi að skammast sín.