131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[15:04]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég verð að taka undir orð síðasta hv. ræðumanns. Ég held að þetta frumvarp sé ótímabært. Frumvarpið er lagt fram meðan óvissuástand ríkir varðandi verðlagningu á orku og ástandið í raforkumálunum, ég vil leyfa mér að segja að þau mál séu í uppnámi. Menn hafa m.a. lýst því, t.d. hæstv. ráðherra iðnaðarmála, að grípa þurfi til ákveðinna aðgerða til að laga umhverfið sem komist hefur á með nýsettum lögum frá því í desember.

Hæstv. forseti. Ég neyðist til að spyrja hæstv. forseta hvort hann álíti að þetta mál sé þingtækt. Þetta mál byggir á og tekur til laga og lagabálka sem þegar hafa fallið úr gildi. Ég veit ekki til að eftir breytingarnar á skattalögunum í desember sé nokkurt dæmi, inni í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, um orðið eignarskatt. Það var algjörlega fellt út síðasta desember.

Þetta frumvarp gengur út á að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Hér eru ýmsar greinargerðir um eignarmat og annað slíkt og þess vegna beini ég eftirfarandi spurningu til hæstv. forseta: Telur hann þetta samrýmast því sem það á að breyta og því lagaumhverfi dagsins í dag? Við breyttum lögum um tekjuskatt og eignarskatt 10. desember og þau heita núna lög um tekjuskatt, hæstv. forseti.

(Forseti (HBl): Ég er að láta athuga hvenær frumvarpið var lagt fram. Mig minnir að það hafi verið lagt fram fyrir jól. Þetta frumvarp er borið fram með þinglegum hætti og forseti lýðveldisins hefur skrifað nafn sitt á frumvarpið. Áður hefur komið fyrir að prentvilla hafi verið í frumvörpum og stundum meira að segja rökleysa. En að gefnu tilefni er ég að athuga hvenær frumvarpið var lagt fram.)

Hæstv. forseti. Á meðan ætla ég að ræða efni frumvarpsins. Ég held að það sem hér um ræðir sé að búa til skattumhverfi þar sem við munum ætlast til þess að orkufyrirtæki greiði tekjuskatta og reyndar eignarskatta, eins og frumvarpið er í pottinn búið, sem hafa þegar verið felldir niður. Þessi umræða bætist við ástand sem nú er uppi, tiltölulega viðkvæmt ástand sem m.a. hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst yfir að þyrfti nauðsynlega að leysa, taka á og lagfæra.

(Forseti (HBl): Ég bið hv. þingmann að afsaka. Þetta frumvarp var lagt fram 23. nóvember.)

En allt að einu, hæstv. forseti, þá er efni frumvarpsins þannig að gjörbreyta þarf því í nefnd. Það þarf að fella út allt sem snýr að eignarsköttum, endurmati á eignum, fyrningum o.s.frv., vegna þess að sá skattstofn er ekki lengur til. Ég hélt að okkur hefði öllum verið það ljóst sem tókum þann slag fyrir áramót. Þetta vildi ég benda á.

Í þessu máli erum við að leggja til skattlagningu á orkufyrirtækin einhvern tíma í framtíðinni. Þau eru sérstaklega skilgreind, þ.e. vinnslufyrirtæki, dreifingarfyrirtæki, flutningsfyrirtæki, sölufyrirtæki og afhendingarfyrirtæki á raforku og heitu vatni. Þetta eru þau fyrirtæki sem í framtíðinni eiga að borga tekjuskatt. Tekjuskatturinn verður sennilega ekki til fyrr en kominn er tekjuafgangur í fyrirtækjunum.

Samkvæmt nýjum raforkulögum eigum við að uppfylla þau ákvæði að fyrirtæki nái á nokkrum árum að greiða eigendum sínum arð. Ef ég man rétt er í raforkulögunum stefnt að því að hugsanlegur arður orkufyrirtækjanna geti orðið allt að 7–8%. Mig minnir að sú tala standi þar. Það kann hins vegar að taka nokkur ár að ná þeirri arðsemi en að því er stefnt.

Það hefur náttúrlega komið í ljós, við breytingu á raforkulögum, að þar er gjaldtakan að hækka. Hún hækkar mismikið og fólki er með því mismunað eftir búsetu og hvers konar orku það notar, í hvers konar húsnæði það býr, hvort það býr á hlýrri stöðum landsins eða köldustu svæðunum, nyrstu svæðunum o.s.frv.

Ég tel að sú útfærsla verði afar óhagstæð fyrir landsbyggðina og geti í mörgum tilfellum ýtt undir það að íbúar landsbyggðarinnar flytji af köldum svæðum, þar sem nota þarf raforku til húshitunar, og inn á svæði með lægra orkugjald og húshitunargjald, hitaveitusvæði, m.a. suðvestanlands. Vissulega er hægt að færa rök fyrir því að eldra fólk fái betri aðgang að sjúkrahúsþjónustu. Hér er stærsta markaðssvæðið og sennilega hagkvæmasta vöruverð á landinu. Fyrir það fólk sem komið er á ellilífeyri hefur búsetan því mikið að segja varðandi afkomu þess í framtíðinni.

Það er geysilega mikilvægt, sem m.a. hæstv. iðnaðarráðherra hefur lýst yfir að þyrfti að taka á, að koma í veg fyrir að orkuverð hækki eins og gerst hefur og virtist koma öllum á óvart miðað við fyrri yfirlýsingar. En látum það liggja milli hluta við þessa umræðu.

Segjum að fyrirtækin færu að skila góðum hagnaði og greiða arð til eigenda sinna á líka að skattleggja þau. Þau eiga einnig að borga skatt til ríkisins. Ég hygg að það sé rétt sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fyrr í dag, að langmestar líkur eru til að hinir venjulegu neytendur í landinu finni helst fyrir hækkandi orkuverði. Hægt er að halda því fram að eftir því sem gjaldtökur á orkufyrirtækin verða meiri, hvort sem er í formi skatta eða kröfu um að orkufyrirtækin skuli skila eigendum sínum arði, þá séum við að leggja álögur á fólkið.

Það er svolítið öfugsnúið, hæstv. forseti, að við höfum nýlega gengið í gegnum skattalagabreytingar sem áttu að lækka skatta fólks. Það tókst að vísu svo óhönduglega til að þá lækkaði mest skattur á hátekjufólki en ekki þeim sem þurftu mest á því að halda. Hér er hins vegar lagt til að auka álögur á sama fólkið með því að landsmenn standi annars vegar undir arðgreiðslu samkvæmt raforkulögunum og hins vegar bætist við skattlagning.

Mér er spurn, hæstv. forseti: Eru þetta ekki ótímabær skref að taka núna? Er ekki rétt að láta líða nokkurn tíma og reyna að ná að komast út úr þeim vandræðagangi sem fylgir raforkulögunum? Þurfum við að bæta þessu við líka? Ég hefði haldið það, virðulegi forseti. Ég hef hins vegar orðið var við að það er sama hvaða skynsamlega frestunartillaga kemur fram, um að menn fái örlítið meiri tíma til að átta sig á afleiðingum verka sinna. Þær eru alltaf felldar vegna þess að stjórnarforustan gengur fram í misskildum metnaði verka sinna, sem eru sum hver ekki nógu vel úr garði gerð. Hún fæst ekki til að víkja af rangri leið sé henni bent á að æskilegt sé að fresta einhverjum ákvörðunum, að átta sig á hvaða afleiðingar lögin geta haft. Nei, þeir æða út í ána og bíða eftir því að í henni vaxi. Það er að gerast í raforkumálunum. Menn standa þar upp í klof og ætli hæstv. iðnaðarráðherra þurfi ekki bráðum í flotgalla. Við viljum að hún haldi lífi, ekki vil ég henni neitt annað.

En svona eru þessi verk, hæstv. forseti. Það er fullt tilefni til að leyfa þessu máli að liggja, fyrir utan það að það er sett fram í samhengi við lög sem þegar er búið að fella úr gildi.