131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:36]

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ákveðins misskilnings gæti hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þegar hann talar um að hugmyndafræðin bak við gjafsókn sé eingöngu fjárhagslegs eðlis. Hann talar um að það sé einungis réttlætanlegt að veita gjafsókn í þeim tilvikum þegar um er að ræða efnaminni einstaklinga eins og hann sagði. Ef hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er þeirrar skoðunar þá hlýtur hann að fella 4. gr. þessa frumvarps sem lýtur einmitt að því að veita gjafsókn í þjóðlendumálunum burt séð frá efnahag. Þá hlýtur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson einnig að beita sér fyrir breytingu á sifjalögum og öðrum lagabálkum þar sem lögbundna gjafsókn er að finna burt séð frá efnahag, þ.e. ef þetta er hans skoðun. Það væri ágætt að fá í hans svari skýringar á því og fyrirætlanir um þær lagabreytingar miðað við það sem hann sagði áðan.

Síðan langaði mig að koma inn á annað atriði. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson talar um að réttur hinna efnaminni sé ekki skertur með þessu frumvarpi. Hann er skertur með þessu frumvarpi því núna verður í einkamálalögunum eingöngu hægt að miða við fjárhagslega stöðu. Hver er sú fjárhagslega staða? Hún er um 79 þús. kr. á mánuði. Það má alveg með góðum rökum segja að fólk sem er yfir því marki, t.d. með 80 þús. kr. á mánuði, hafi ekki þann rétt lengur ef þetta frumvarp nær fram að ganga því það er þá orðið efnasterkt fólk. Ég held því að það að afnema þennan svokallaða b-lið, sem hefur almenna þýðingu og náði til allra burt séð frá efnahag, muni einnig koma niður á því fólki sem hefur lágar tekjur en er hins vegar yfir þessum mörkum, 79 þús. kr. Allir vita að 79 þús. kr. á mánuði eru ekki háar tekjur. Fólk með tekjur á bilinu 80–120 þús. kr. er lágtekjufólk en það mun ekki hafa þá sama aðgang að gjafsókn og þar af leiðandi ekki sama aðgang að dómskerfinu. Það væri ágætt að fá skýrari svör um þessi tvö atriði hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni á eftir.