131. löggjafarþing — 66. fundur,  3. feb. 2005.

Einkamálalög og þjóðlendulög.

190. mál
[15:38]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að vekja athygli á því að í löggjöfinni eru ýmis ákvæði sem kveða á um að málsaðilum í tilteknum málum skuli veitt gjafsókn. Svo er t.d. á sviði sifjaréttarins í faðernisviðurkenningarmálum og öðrum slíkum málum, forsjármálum, ef ég man rétt.

Ég hef ekki í hyggju að ganga á rétt þeirra sem hafa þann rétt í lögum að njóta gjafsóknar vegna slíkra mála. Ég hef engin áform uppi um slíkt. Ég vil benda á að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar breytir engu um réttarstöðu þessa fólks. Lögbundin gjafsókn þessara þjóðfélagshópa stendur eftir sem áður og mun gera það.

Ég hef heldur engin áform um að beita mér fyrir því að 4. gr. þessara laga verði felld. Ég er sammála rökstuðningnum sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu. Jafnræðisrök liggja þar að baki varðandi þau mál sem sú frumvarpsgrein byggir á. Ég get því ekki upplýst hv. þm. um neinar frekari breytingar sem ég hyggst beita mér fyrir.

Ég bendi hins vegar á og ítreka, af því að hv. þingmaður vék að því, að grundvallarhugmyndin að baki því að veitt sé gjafsókn til einstaklinga í þjóðfélaginu sem höfða mál vegna þess að þeir telja að á sér sé brotinn réttur er sú, hvað sem hv. þingmaður segir, að tryggja að þeir sem eru ekki fjárhagslega í stakk búnir til þess að höfða mál geti gert það og á kostnað ríkisins.

Eins og ég sagði áðan þá er kannski rétt að hafa þessa fjárhæð til stöðugrar endurskoðunar.