131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 1.

[15:05]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Auðvitað er mjög mikilvægt í öllum viðskiptum að forðast rugling og misvísanir, sérstaklega hvað varðar uppruna vöru. Ég tek eindregið undir það sem fram kemur í máli þingmannsins varðandi þetta mál og ég veit ekki betur en að utanríkisráðuneytið hafi þegar gripið til viðeigandi ráðstafana til að reyna að koma í veg fyrir þessa skráningu sem er auðvitað mjög blekkjandi og getur ekki verið í þágu þessa fyrirtækis sem væri hugsanlega í einhverjum tilfellum að villa á sér heimildir með þessum hætti.

Ég skal ekki segja nákvæmlega hvar þetta mál er núna á vegi statt. Ég deili þeim áhyggjum sem fram hafa komið, bæði hér og í fjölmiðlum út af því en vonandi tekst að stýra málinu farsællega í höfn, annaðhvort með því að beita þeim úrræðum sem fyrir hendi kunna að vera gagnvart þeim stofnunum sem þetta mál heyrir undir á alþjóðlegum vettvangi eða þá hugsanlega með einhverju samkomulagi við þá aðila sem reka þetta fyrirtæki.