131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 1.

[15:09]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að þetta sé mikill misskilningur hjá hæstv. starfandi utanríkisráðherra og það mundi verða honum mjög til framdráttar. Svo mikið er víst að ekki vil ég skipta og taka upp lénið geirhilmarhaarde.is, það er alveg á hreinu.

Ég ætla ekki að fara út í að velta vöngum yfir því hvað þessu erlenda fyrirtæki gekk til þegar það á sínum tíma tók upp þetta nafn. Það á sér kannski rót í því að fyrirtækið var sérhæft framan af í frosinni vöru og hefur sjálfsagt talið það sniðugt að selja hana undir nafninu Iceland. Aðrir miklu stærri og alvarlegri hlutir eru á ferð þar sem í umsókn fyrirtækisins er gerð tilraun til að færa þetta vöruheiti út yfir margs konar vöruflokka og þjónustustarfsemi sem er auðvitað algerlega fráleitt. Ég vil segja við hæstv. ráðherra að ég tel ástæðu til að stjórnvöld taki það upp á réttum vettvangi, t.d. í gegnum aðild sína að skráningum af þessum tagi, Evrópsku einkaleyfastofuna og hvað það nú er, að það sé alls ekki yfir höfuð hægt. Það á auðvitað ekki að líðast að nöfn landa, sjálfstæðra þjóðríkja, geti komið til skráningar með þessum hætti og því þarf að breyta.