131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 2.

[15:12]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég sé ekki að það séu annmarkar á því að þessar upplýsingar séu á vef Samkeppnisstofnunar. Það er rétt sem kom fram að mjög umfangsmikil skýrsla var unnin árið 2001 og ég man ekki betur en að hún hafi kostað 14 millj. kr. Miklir hlutir eru að gerast á fjármálamarkaði og í viðskiptalífinu þannig að breytingar eru örar og ég held að það sé erfitt að koma því svo fyrir að alltaf séu nýjustu upplýsingar og réttar upplýsingar til staðar. Það væri alveg að æra óstöðugan að geta fylgt því eftir en ég tel að það sé mikilvægt með vissu millibili að uppfæra upplýsingarnar.

Það eru ákveðin vonbrigði í mínum huga að þessi skýrsla sem var svona gríðarlega umfangsmikil og dýr í vinnslu varð síðan ekki eins spennandi, sýndist mér, og þeir höfðu reiknað með sem komu fram með beiðni um skýrslugerðina. Það varð ekki mikil umfjöllun um þessa skýrslu og það þótti mér verra. En síðan þá hafa miklir hlutir gerst og eins og kom hér fram er verið að uppfæra þetta. Það er með þessar upplýsingar eins og allar upplýsingar sem stjórnvöld vinna og eru til staðar af hálfu stjórnvalda að það er mikilvægt að aðgengi sé að þeim. Við erum þekkt fyrir það, Íslendingar, að standa frekar vel að vígi í sambandi við upplýsingasamfélagið og upplýsingar stjórnvalda það ég best veit.