131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 2.

[15:14]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka viðskiptaráðherra fyrir að taka vel í málið en ég hefði kannski átt að vera aðeins beinskeyttari í fyrirspurn minni og spyrja hvort ráðherrann væri tilbúin að beita sér fyrir því að þetta verði gert þannig að við getum á hverjum tíma fengið upplýsingarnar eins og menn vita þær réttastar á þeim tíma sem þær fara inn á vef Samkeppnisstofnunar. Ég geri ráð fyrir að það sé t.d. hægt að keyra saman upplýsingar úr Kauphöllinni sem færu þá inn á vef Samkeppnisstofnunar og þá gætu menn einfaldlega unnið úr þeim eins og þeim hentaði hverju sinni.

Það kann vel að vera að skýrslan árið 2001 hafi ekki þótt ýkja spennandi og skýringarinnar kann að vera að leita í því að þegar skýrslan kom út var hún þegar orðin úrelt. Eins og við vitum eiga sér stað svo miklar breytingar á hverjum tíma á þessum eigna- og stjórnunartengslum að 500 blaðsíðna skýrsla sem búið er að verja jafnvel 14 millj. kr. í er kannski unnin fyrir lítið ef hún er ekki uppfærð stöðugt. Þess vegna beini ég þessari fyrirspurn til ráðherrans.