131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 3.

[15:18]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Ég heyri hvað hv. þingmaður spyr um og hef ánægju af að svara þeim spurningum.

Það sem liggur fyrir varðandi svokallaðan Norðurveg er að ekkert er um hann í samgönguáætlun. Samgönguáætlun gerir ekki ráð fyrir vegagerð á þessu svæði. Hins vegar gerði samgönguáætlunin ráð fyrir því að byggja upp svokallaða hálendisvegi fjórar leiðir um landið. Síðan hefur sá áhugi vaknað að bæta um betur og leggja Norðurveg yfir hálendið. Þetta er allt saman á undirbúningsstigi. Þarna kemur fram ríkur vilji. Ég hef heimilað Vegagerðinni að setja upp veðurathugunarstöðvar á hálendinu til að kanna veðuraðstæður á þessu svæði og tel að það hljóti að vera fyrsta skrefið til að hægt sé að meta áhrif af veðurfari á slíka vegagerð.

Engar rannsóknir liggja fyrir sem gefa okkur merki um hvernig aðstæður eru þarna til vegagerðar og áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar þarf að fara í slíkar rannsóknir. Ég tel alveg augljóst að ef hálendisvegur yrði lagður á þessu svæði hefði það mikil áhrif og ég tel óhjákvæmilegt að áður en lagt verður á ráðin um slíkar framkvæmdir fari fram miklar rannsóknir, bæði á þeim möguleika að þarna sé yfirleitt opinn vegur, hvaða áhrif slík vegagerð hefði á byggðina í landinu og hvaða áhrif slík vegagerð hefði á hálendið og nýtingu hálendisins sem meginauðlindar íslenskrar ferðaþjónustu.