131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 3.

[15:21]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég á mjög erfitt með að meta þau áhrif. Auðvitað mun vegagerð eins og vegur yfir hálendið milli Eyjafjarðarsvæðisins og höfuðborgarsvæðisins hafa heilmikil áhrif og þar á meðal mun slíkur vegur hafa áhrif á aðrar samgöngur út frá Norðurlandi, aðrar leiðir svo sem eins og um Tröllaskaga. Jarðgöng um Héðinsfjörð milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar þarf að líta á allt saman í samhengi.

Hvað varðar flugið er mjög erfitt að meta það, ekki síst í slíkri fyrirvaralausri fyrirspurn sem hér er á ferðum, óundirbúinni. Ég tel að það sé m.a. eitt af því sem þarf að skoða við undirbúning slíkra áforma og ég tel eðlilegt að í tengslum við gerð samgönguáætlunar verði lagt á ráðin um hvernig eigi að taka slíkum tillögum. Ég tel að það sé hinn eðlilegi vettvangur til þeirrar umfjöllunar.