131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 4.

[15:22]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum mánuðum komu fram tillögur frá verkefnishópi á vegum menntamálaráðuneytisins um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Var það önnur skýrslan á einu ári sem kom fram um það mál. Það markmið styð ég, að almennt útskrifist nemendur með stúdentspróf 19 ára úr framhaldsskólum en í kjölfar þessarar umræðu hafa vaknað margar spurningar. Hæstv. ráðherra hefur gefið það út að hún sé að heimsækja framhaldsskóla landsins um þessar mundir til að kynna tillögurnar og því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvað líði frekari tillögugerð og hvort þingmál um styttingu náms til stúdentsprófs muni koma inn á Alþingi á næstu dögum eða á þessu vorþingi.

Í annan stað hafa sérstaklega verið viðraðar áhyggjur, m.a. í máli nokkurra rektora framhaldsskóla sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum, um að stytting námstíma til stúdentsprófs gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir stúdentsprófið. Það mundi gengisfalla, það yrði einsleitara en áður, inntak og gæði námsins mundu bíða hnekki við þessa styttingu væri ekki vel á málum haldið. Sérstaklega hefur verið bent á að gott samráð þurfi að hafa við grunnskólann og skólasamfélagið allt af því að meginmarkmið tillögunnar er að þætta saman skólastigin og flytja einar 12 einingar úr framhaldsskóla til grunnskólans.

Því beini ég einnig þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvort fram hafi farið samráð við grunnskólasamfélagið, viðræður við sveitarfélögin í landinu, hvort þau séu í stakk búin til að taka við þessari auknu kennslu og hvort rætt hafi verið við samtök kennara um breytta kennaramenntun. Þetta býður upp á að starf þeirra muni breytast, sérstaklega þegar kemur að menntun í raungreinum og stærðfræði þar sem mjög fáir kennarar stunda nám með þau fög sem aðalkjörsvið.